140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:30]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það og ég held til dæmis að sjónarmið mín hafi breyst að nokkru leyti í þessu sambandi þannig að ég er þeirrar skoðunar í dag og var líka á síðasta ári þegar við ræddum ráðuneytabreytingar, að ekki megi gera lítið úr þætti þingsins við að móta hvaða ráðuneyti starfa í landinu. Ég hafði minni áhyggjur af þeim þætti vorið 2007 og afstaða mín hefur breyst. En ég stend fullkomlega við öll þau gagnrýnisatriði sem fram koma í nefndaráliti minni hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og tel að hv. þingmaður hafi ekki með nokkru móti hrakið þau. Ég vil líka benda á að frá árinu 2007 hefur verið mikil umræða víða um það, meðal annars hér á þingi, að við ætluðum að bæta vinnubrögð. Gefin hefur verið út handbók um undirbúning lagafrumvarpa. Ríkisstjórnin hefur sett sér sérstakar reglur um undirbúning þingmála. (Forseti hringir.) Ég tel því að þrátt fyrir að menn hafi hugsanlega flýtt sér um of vorið 2007 réttlæti það ekki ófullnægjandi vinnubrögð í dag.