140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf að rifja það upp fyrir hv. þingmanni því að það gleymist oft hjá Samfylkingunni að hún var í ríkisstjórn árið 2007. Þegar Samfylkingin vann að þessum breytingum með okkur sjálfstæðismönnum þá tókst hins vegar miklu betur til, eins og hv. þingmaður (Gripið fram í: Já.) rakti. Þá var miklu minni andstaða við málið, eins og hv. þingmaður sýndi fram á. Þess vegna er það svo að það veldur hver á heldur.

Nú hefur tekist svo illa til við þessar breytingar að það hefur framkallað mikla andstöðu bæði innan og utan þings.

Ég vakti athygli á því að um haustið 2007 var lagt fram frumvarp sem laut að stofnanaumgerðinni og þá fóru fram mjög miklar umræður. Var það málþóf að mati hv. þingmanns? Sjö klukkustunda umræða í 1. umr. og 11 klukkustunda umræða á þremur dögum í 2. umr., er það til marks um málþóf? Ég held ekki, ég held að þær umræður hafi bara verið eðlilegar.

Það sem við erum einfaldlega að horfast í augu við núna er að þetta mál kemur vanbúið hingað inn, það kemur (Forseti hringir.) án þess að leitað hafi verið nægilegrar sáttar. Það samráð sem menn vísa til er sýndarsamráð. Menn voru boðaðir á fundi, það var ekkert hlustað á (Forseti hringir.) sjónarmið þeirra og síðan var sagt: Þetta er hið fína samráð sem við ætlum að viðhafa.