140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir beiðni hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um að forseti upplýsi hversu lengi fundur skuli standa hér í nótt. Eins og fram hefur komið eru nefndarfundir snemma í fyrramálið, til að mynda á atvinnuveganefnd að mæta hálfníu — var reyndar á fundi í kvöld í tvo tíma — og taka á móti sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins og ræða þar eitt og annað. Það gæti verið skynsamlegt ef þingmenn fengju tíma til að hvíla sig, undirbúa sig og vera vel útsofnir svo að þeir verði ekki úrillir og leiðir við hv. þingmenn sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins. (Gripið fram í.)

Svo vil ég líka minna á það sem við ræddum hér fyrr í dag, að á dagskránni eru ein sjö mál sem hefði verið skynsamlegra að taka á dagskrá en ræða þetta mál til þrautar (Forseti hringir.) fram á nótt.

Ég ítreka þá fyrirspurn hversu lengi forseti hyggst halda áfram fram á nótt því að ég held að menn þurfi að skipuleggja vinnu sína betur en þeir geta gert við núverandi aðstæður.