140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær var haft eftir hv. þingmanni og þingflokksformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Birni Vali Gíslasyni, að stóru málin sem ríkisstjórnarflokkarnir ætli að setja í forgang séu fiskveiðistjórnarfrumvörpin, rammaáætlun, stjórnarskráin og Stjórnarráðið. Hér er haft eftir þingmanninum, með leyfi forseta:

„Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir að þetta séu þau mál sem ríkisstjórnin ætli að klára á þessu þingi. Um annað verði ekki samið.“

Við höfum í dag heyrt umræður um skýrslu sérfræðinga sem lögð var fyrir atvinnuveganefnd í gær. Þar kemur fram hörð gagnrýni á þessi frumvörp. Rifjum aðeins upp hvað gerðist hér fyrir ári síðan. Þá kom ríkisstjórnin með ófullburða, vanbúin og illa unnin frumvörp um sjávarútvegsmál sem lögð voru til hliðar, blessunarlega, eftir að sérfræðingar og umsagnaraðilar höfðu gefið þeim frumvörpum algjöra falleinkunn. Nú velti ég fyrir mér hvort það geti verið að ríkisstjórnin ætli sér að hunsa þær sérfræðiumsagnir sem þarna koma fram og ætli sér að keyra þessi frumvörp í gegn algerlega óháð því hvað mönnum finnst um þau og þá er ég ekki að tala um menn í þessum sal, heldur hagsmunaaðila og sérfræðinga úti í bæ.

Vegna ummæla hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um að stjórnarandstaðan sé að koma í veg fyrir góð mál sem snerta heimilin og fyrirtækin í landinu vil ég segja eftirfarandi: Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei staðið í vegi fyrir því að mál sem snerta afkomu og velferð heimilanna og fyrirtækjanna í landinu komist á dagskrá hér og komist til nefndar og fái þinglega meðferð, aldrei. Ef ríkisstjórninni (Forseti hringir.) væri einhver alvara með þessu mundi hún forgangsraða þessum málum þannig að þau væru efst á dagskránni og legði til hliðar mál sem nú síðast, samanber sjávarútvegsmálin, fá falleinkunn úti í samfélaginu.