140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:26]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að það væri alvanalegt að afgreiða mál á færibandi úr þinginu. Ég held að við öll sem vorum kjörin á Alþingi í síðustu alþingiskosningum höfum ekki komið hingað inn með það að markmiði að halda áfram þeim gömlu vinnubrögðum að afgreiða mál út á færibandi, eins og hæstv. forsætisráðherra virðist hafa vanist við á sinni 30 ára þingsetu. Við komum hingað inn til að breyta vinnubrögðum.

Frú forseti. Þau mál sem ríkisstjórnin hefur sett á oddinn hér, stjórnarskrármálið, stjórnarráðsmálið, fiskveiðistjórnin og ramminn um vernd og nýtingu orkuauðlinda eiga það öll sameiginlegt að njóta ekki meirihlutastuðnings innan stjórnarflokkanna vegna þess að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um þau. Þau eiga það líka sameiginlegt að hafa komið hingað inn á færibandi, í bílfarmi, síðustu dagana áður en hætt var að dreifa frumvörpum. Allt fram að þeim tíma voru þingnefndir atvinnulausar vegna þess að það komu engin mál frá hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Þetta eru vinnubrögðin (Gripið fram í.) sem þarf að breyta, (Forseti hringir.) frú forseti, og það gerist ekki nema þingið segi: Hingað og ekki lengra, við hæstv. forsætisráðherra.