140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á sameiningar á ráðuneytum sem gerðar voru fyrr á þessu kjörtímabili og minntist sérstaklega á velferðarráðuneytið. Af því að hér var rætt um kostnað langar mig aðeins að endurtaka þær tölur sem komið hafa fram um þær sameiningar að einskiptiskostnaður, þ.e. útlagður kostnaður við breytingar á húsnæði og öðru sem ráðast þarf í einu sinni vegna sameiningar þessara ráðuneyta í innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti, voru 225 milljónir. Sparnaður á fjárlögum á þessum einingum er hins vegar 145 milljónir árið 2012. Það er því alveg ljóst að það tekur skamman tíma að vinna þetta upp, þetta er sem sagt fjárfesting sem borgar sig upp fljótt og vel. Ég hef trú á því að hið sama gerist þegar þessi ráðuneyti verða sameinuð.

Hv. þingmaður virðist meta umfang ráðuneyta eftir því hversu mikla fjármuni þau fara með. Ég er ekki alveg sammála því að við getum metið það þannig vegna þess að velferðarráðuneytið er með almannatryggingarnar og alla þessa stóru fjárfreku bótaflokka. Það þýðir ekki að þar sé svo ofboðslegt vinnuumfang en auðvitað er það mjög mikilsvert, ekki ætla ég að gera lítið úr því. En einhvern veginn held ég að við höfum ólíka sýn á það hvernig maður metur stærð ráðuneyta að þessu leyti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort við höfum líka ólíkar skoðanir varðandi umhverfis- og auðlindamál. Ég held að það sé gott að hafa þetta í sama ráðuneytinu til þess að það (Forseti hringir.) verði skýr sýn á þessa hagsmuni sem eru í rauninni sömu hagsmunirnir og það á ekki að vera togstreita þeirra á milli. Sér hv. þingmaður þetta allt öðrum augum en ég?