140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er nú svo í þessu máli að hvín stundum í og ber nokkuð á tætingi þingmanna undir þeirri umræðu sem hér á sér stað. Ég vil hvetja fólk til að vera þokkalega rólegt í umræðunni um þetta. Þetta er mikið mál og tekur á mjög stórum þáttum í viðfangsefni sem okkur er ætlað að sinna. Það má segja í meginatriðið kristallist í raun í því að þegar hæstv. forsætisráðherra kom með þetta mál fyrst fram fyrir allnokkru síðan, þegar gerðar voru breytingar á stjórnarráðslögunum, féllst þingið ekki á upphaflega ósk ríkisstjórnarinnar um að forsætisráðherra hefði óskoraðar heimildir til að skipa ráðuneytum eftir því hvernig forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar þætti best henta hverju sinni. Þingið tók þá afstöðu að fallast ekki á þá tillögu hæstv. forsætisráðherra og óskaði eftir því og gerði kröfu til þess að sú meðferð yrði viðhöfð sem við upplifum hér með þessari þingsályktun, niðurstaða varð sú og meiri hluti myndaðist um þá meðferð. Óskin frá þinginu kristallaðist í raun í því að vita meira um þær breytingar sem á ráðuneytunum ætti að gera en bara það eitt hvaða heiti viðkomandi ráðuneyti ættu að bera, þ.e. hvernig málum yrði skipað innan Stjórnarráðsins.

Þegar maður lítur aðeins í gegnum söguna sér maður ágætlega þær áherslur sem þar hafa verið uppi og þarf í rauninni ekkert að leita mikið lengra en aftur til ársins 2007, í umræður þingsins um þá umdeildu tillögu um breytingar á Stjórnarráðinu sem þá var lögð fram. Þær breytingar sem þá voru gerðar hafa verið mikið í umræðunni um þá þingsályktunartillögu sem við ræðum nú. Hún er gerð með öfugum formerkjum við það sem þá var. Þá var núverandi stjórnarmeirihluti í stjórnarandstöðu og núverandi stjórnarandstaða réð för, að nokkrum hluta þó þar sem Samfylkingin var í stjórnarmeirihlutanum 2007 og sömuleiðis núna. Það er mjög fróðlegt að bera saman þær áherslur sem komu fram í máli manna við Stjórnarráðsbreytingar 2007 við þær áherslur sem koma fram í þeirri ósk sem nú liggur fyrir í formi þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsætisráðherra ber fram.

Að því sem lýtur að vilja þingsins til að vita innihaldið í breytingunum sem gera á er ágætt að horfa til þeirrar orðræðu sem ég gat um. Ég vil, með leyfi forseta, vitna hér til ræðu sem flutt var við umræðuna 2007. Eftirfarandi er prentað í þingtíðindum og haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi hv. þingmanni, og orðrétt hljóðar þetta svo:

„Hvað efnisatriði frumvarpsins varðar held ég að sú opna heimild til að sameina ráðuneyti án atbeina Alþingis sé ekki skynsamleg. Ég tel að ákveða eigi hlutina á Alþingi með lögum og að ekki sé eðlilegt að menn geti stofnað eða sameinað ráðuneyti öðruvísi en atbeini Alþingis komi til. Með það á ekki að hringla, það þarf að vera stjórnfesta í þeim efnum. Vanda á undirbúning allra breytinga og vinna þær faglega en ekki með þeim hætti sem nú á að fara að gera.“

Þetta var árið 2007.

Það má í rauninni segja að þetta viðhorf hafi fengið enn frekari styrk í afgreiðslu Alþingis á upphaflegri tillögu núverandi hæstv. forsætisráðherra til breytinga á Stjórnarráðinu, þegar ekki var fallist á þá gagngeru kröfu sem lögð var fram, svo undarlegt sem það er, með stuðningi hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar.

Það er raunar fleira sem er fróðlegt að bera saman í umræðunni sem þá átti sér stað og nú og horfa til þess hvernig viðhorf í þessum efnum litast af því hvorum megin borðs viðkomandi talsmaður sjónarmiða situr. Ég vil þó taka skýrt fram að í þessari orðræðu minni er ég ekki endilega að afsaka eða lýsa yfir sérstakri ánægju með það verklag sem viðhaft var fyrrum við breytingar á Stjórnarráðinu, það er langur vegur frá að svo sé, þetta er alltaf umdeilanlegt. Meginatriðið tel ég þó að verði að koma skýrt fram og það er að fyrir liggi hvernig verkefnum verður skipað milli ráðuneyta, en ekki að heimildin sé svo opin sem raun ber vitni og útfærslan á þessu máli eins og Alþingi skynjar hana ekki nægilega góð.

Ég rak mig sjálfur á það í fyrri umræðu um þingsályktunartillögu að nokkuð bar á milli skilnings hæstvirtra ráðherra á því til dæmis hvorum megin hryggjar mjög mikilvæg stofnun, Hafrannsóknastofnunin, ætti að vera, annaðhvort hjá umhverfisráðuneytinu eða nýju atvinnuvegaráðuneyti. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ráðherra umhverfismála bar í raun ekki saman þegar innt var eftir þeirra skilningi á þessum efnum. Hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra orðaði þetta þannig að fyrsta kastið yrði stofnunin í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu eða atvinnuvegaráðuneytinu. Það fengust hins vegar ekki svör við því hversu langt það kast væri eða hvernig þessum málum yrði háttað til lengri tíma litið.

Það er líka mjög sérstakt að horfa til sögunnar þegar við metum afstöðu Vinstri grænna í þessum málum, en hvorir tveggja flokksráðsfundur Vinstri grænna og landsfundur hafa ályktað og reynt að álykta í þessum málum. Til dæmis vil ég nefna að lögð voru fram drög að ályktunum á landsfundi Vinstri grænna sem haldinn var á Akureyri 2010, þar sem óskað var eftir því að landsfundurinn staðfesti þá tillögu sem þar var lögð fram um að stofna umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Eftir allmiklar umræður var þeim drögum vísað frá fundinum, á þau var ekki fallist af hálfu landsfundar Vinstri grænna á þessum tíma. Raunar er eina ályktunin sem í gildi er hjá þessari ágætu stjórnmálahreyfingu sú sem ég óska leyfis hæstv. forseta að lesa hér. Hún lýtur að endurskoðun Stjórnarráðsins og hljóðar þannig:

„Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.–16. janúar 2010, skorar á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin.

Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára.

Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Þetta er, forseti, eina samþykktin sem gerð hefur verið af helstu stofnunum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, flokksráðsfundi eða landsfundi. Eins og við þekkjum sem fylgjumst með þessari umræðu liggur fyrir að mjög mikil andstaða hefur verið innan Vinstri grænna við þau áform sem komu fram í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að loknum kosningunum 2009. Það væri mjög fróðlegt að heyra hvernig þingmenn Vinstri grænna rökstyðja þær breytingar sem hér eru lagðar fram, ekki síst í ljósi umræðunnar og afgreiðslunnar sem tillögur frá einstökum þingmönnum eða forsvarsmönnum þessa sama stjórnmálaafls hafa fengið.

Í umræðu stjórnmálamanna hefur í raun verið gegnumgangandi mjög ríkur og sterkur vilji til að um þær breytingar sem iðulega eru gerðar á Stjórnarráðinu og skipan þess sé sem mest sátt. Það er hægt að finna ótal tilvitnanir í þeim efnum og þegar maður fer yfir þær er raunar með ólíkindum af hverju við stöndum frammi fyrir því í dag að þurfa að þrátta um þessi efni fram og til baka, eins og við höfum upplifað, einfaldlega vegna þess að sjálfsagt væri hægur vandi að leiða þessi mál í jörð með öðrum hætti en hér er reynt að gera.

Í skemmstu máli má segja að helstu gagnrýnisatriðin gagnvart þeim tillögum sem hér liggja fyrir, ef ég dreg þau saman, séu þau að mönnum þykir skorta á rökstuðning fyrir breytingunum og að undirbúningur hafi verið misgóður. Ég get þó alveg tekið undir að áformum var frestað um hluta þessara breytinga, þeim sem lýtur að nýju atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Menn gáfu sér betri tíma til að ræða þær hugmyndir og fara yfir rök með og á móti. Við höfum hins vegar skiptar skoðanir á innihaldinu í því og enn fremur vil ég undirstrika það sem ég nefndi áðan að við höfum ekki enn þá fengið nægilega skýr svör um hvernig þessum málum verður skipað undir nýjum ráðuneytum.

Hins vegar liggur fyrir varðandi fjármála- og efnahagsráðuneytið og þætti sem heyra undir það, að þær breytingar hafa ekki verið undirbúnar með sama hætti og með hitt ráðuneytið, og hefur greinilega knappari tími gefist til þess. Helsta gagnrýnin á þann þátt hefur ekki komið frá stjórnarandstöðunni, svo undarlegt sem það er, heldur úr röðum stjórnarliðanna sjálfra og ég vil taka undir þá gagnrýni í stórum dráttum. Í umræðum í gær innti ég einn nefndarmanna sem stendur að nefndarálitinu sem hér liggur fyrir, hv. þm. Lúðvík Geirsson, eftir skoðunum hans á þeim sjónarmiðum sem þar hafa verið sett fram og hann lýsti sig einfaldlega andvígan þeirri gagnrýni sem kom úr stjórnarherbúðunum án þess að rökstyðja það frekar.

Ég vil drepa aðeins á þá gagnrýnisþætti sem lúta að þessu nýja fjármála- og efnahagsráðuneyti og hv. þm. Árni Páll Árnason hélt fram í fyrri umræðunni um þess þingsályktun. Hann nefndi sem sína skoðun að ekki væri góður bragur á því að hringla með verkaskiptingu í Stjórnarráðinu nema að vel athuguðu máli. Það er samhljómur í þeirri skoðun hans og þeim áherslum sem maður hefur séð í ræðu og riti bæði frá stjórnarandstöðu og stjórnarliðum.

Eins og ég gat um eru tillögurnar um atvinnuvegaráðuneytið og auðlindaráðuneytið betur grundaðar en þær um fjármála- og efnahagsráðuneytið. Hv. þm. Árni Páll Árnason vakti athygli á því að í stjórnarsáttmála Vinstri grænna og Samfylkingarinnar frá árinu 2009, var einn af hornsteinum þess að sameina krafta í hagstjórn landsins og tryggja fullnægjandi yfirsýn að færa yfirstjórn efnahagsmála og fjármálamarkaðarins á einn stað.

Hv. þingmaður sem gegndi embætti efnahags- og viðskiptaráðherra sem annaðist um þessa þætti, setti fram mjög harða gagnrýni á þetta mál og þessa málsmeðferð af hálfu núverandi ríkisstjórnar og taldi að með þessari tillögu væri um að ræða algjöran viðsnúning frá þeirri stefnu sem mörkuð hefði verið í stjórnarsáttmála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Raunar gekk hv. þingmaður svo langt að fullyrða að tillagan hefði verið algjörlega óunnin og órædd annars staðar en innan ríkisstjórnarinnar.

Það er líka ástæða til að staldra við og nefna ýmsa þætti sem koma núna fram í rökstuðningi eða greinargerð með nefndaráliti sem liggur fyrir frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við síðari umræðuna. Í nefndarálitinu eru ýmsar fullyrðingar sem erfitt er að átta sig á hvernig á að leiða út. Ég vil nefna sem dæmi að meiri hluti nefndarinnar vill leggja áherslu á mikilvægi þess að tryggja sem jafnasta stöðu málefnaflokka í Stjórnarráðinu. Ég sé ekki hvernig slíkri jöfnun á að ná með þeim tillögum sem liggja fyrir og væri mjög æskilegt að fá frekari útskýringar á því. Það liggur líka fyrir og kom raunar fram við fyrri umræðuna að það var talið til kosta þessu máli að unnt væri að tryggja meira jafnræði atvinnugreina án þess að það væri skýrt neitt sérstaklega, að öðru leyti en því að rætt var um að ferðaþjónustunni hefði verið sinnt minna en einhverjum öðrum atvinnugreinum. Það væri mjög æskilegt að heyra hvaða hugmyndir stuðningsmenn þessa hefðu um hvernig þetta ætti að ganga fyrir sig. Það er líka talið til kosta þessu máli af hálfu meiri hlutans að með skýrari heildarmynd sé hægt að einfalda stoðkerfið og veita atvinnulífinu betri og skilvirkari þjónustu en nú er gert. Ég efast ekkert um að einhver færi séu í þeim efnum en maður spyr sig þegar um svona stórt mál er að ræða, hvers vegna í ósköpunum þessar áherslur og hugmyndir eru ekki lagðar fram í upphafi.

Þegar horft er síðan til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins staldra ég enn og aftur við það atriði sem fært er fram sem rökstuðningur fyrir þeirri sameiningu, þar sem sagt er að nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti sé ætlað það mikilvæga hlutverk að leggja grunn að sjálfbærni í nýtingu auðlinda í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þetta var orðað með þeim hætti í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að ráðuneytið mundi fá það hlutverk að setja viðmið um sjálfbærni. Ég dreg í efa að einhver forsenda sé fólgin í þessum efnum sem leiði til þess að við þurfum að hafa eitt ráðuneyti til að ná fram þessum sjálfsögðu, eðlilegu og skynsamlegu markmiðum.

Ég innti hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvort það væri eitthvað í núverandi löggjöf sem meinaði Stjórnarráðinu að vinna með þessum hætti og aðspurð sagði hæstv. ráðherra að svo væri ekki, engar skorður væru reistar við því í núverandi skipan Stjórnarráðsins að þannig væri unnið. Ég get ekki tekið þetta sem röksemd fyrir því að leggja inn í það púkk, ég tel að það verði að rökstyðja þetta á annan hátt. Það er hins vegar rætt um það almennum orðum að formgera eigi samstarf þessara ráðherra í því skyni að vinna betur saman. Sjálfsagt er allt gott um það að segja en útfærslan á því liggur heldur ekki fyrir. Við sjáum þetta orðalag líka í mjög umdeildu efni í tillögunni varðandi fjármála- og efnahagsráðuneytið þar sem segir að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi formgert samstarf sitt.

Það er af miklu að taka hér. Ég tek undir þær hugmyndir, og get komið að því í síðari ræðu, sem liggja hér að nýju sjálfstæðu efnahagsráði, ég tel það mjög gott mál. (Forseti hringir.) Ég lýsi mig fylgjandi þeim áherslum án þess að útfærslan sé eitthvað sem ég hef tekið afstöðu til.