140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það broskallaskjal sem ég var að sýna áðan er skjal sem unnið var af sérlegum ráðgjafa hæstv. forsætisráðherra sem enginn vissi deili á, enginn hafði séð og enginn þekkti. Það skjal fjallaði á engan hátt um það sem hv. þingmaður nefndi hér, sem snýr að því að stoðgreinarnar og undirstöðuatvinnugreinarnar séu ekki allar mótfallnar þessu, því að staðreyndin er sú að allir þessir aðilar eru mótfallnir þessu.

Það er annað sem kom fram í hinni stuttu umfjöllun, á þeim tveimur til þremur sólarhringum sem nefndin hafði málið til umfjöllunar, þá heilu þrjá sólarhringa, að margir þeir aðilar sem voru kannski fremur jákvæðir fyrir þessu máli á sínum tíma, og meðan það var í því ferli sem hv. þingmaður minntist á, sögðu á nefndarfundum og hafa síðan sagt í símtölum og samtölum við einstaka þingmenn að þeir séu orðnir frekar andsnúnir málinu í dag. Ég held því að andstaðan sé meiri en hv. þingmaður er að vitna til hér og nær töluvert mikið út fyrir raðir sjávarútvegs og landbúnaðar í því efni.

Ég hallast eiginlega að því að þarna liggi grunnurinn að því hvers vegna meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er ekki tilbúinn undir það að málið fái eðlilega þinglega meðferð. Ástæðan er nefnilega sú að þau þora ekki að leyfa málinu að fá eðlilega þinglega meðferð vegna þess að þau vita að það er að fjara undan þessu máli, eins og flestum illa unnum málum sem hafa komið frá ríkisstjórninni. Maður er farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að við skulum horfa upp á það á hinu háa Alþingi að það komi hvert málið á fætur öðru sem sé þess eðlis að annaðhvort verði að keyra það í gegn án þess að það fái eðlilega þinglega meðferð eða að því sé einfaldlega slátrað — ég biðst velvirðingar á orðalaginu — af öllum umsagnaraðilum eins og er að gerast til að mynda með veiðigjaldið.

Þetta er grafalvarlegt mál (Forseti hringir.) og það er grafalvarlegt að málið skuli ekki fá eðlilega þinglega meðferð.