140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Vinnulagið vekur óneitanlega upp þær grunsemdir um að þetta sé fyrst og fremst hugsað til að breiða yfir vandræðaganginn, til að reyna að draga athyglina frá þeirri staðreynd að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að taka á skuldavanda heimilanna, þeirri staðreynd að ríkisstjórnin er ekki að koma atvinnulífinu í gang, þeirri staðreynd að allt það ágæta fólk, unga fólk sem flutt hefur til útlanda, sér ekki sóknarmöguleika fólgna í því að flytja aftur heim eins og sakir standa. Svona mætti áfram telja.

Það er annað sem hefur vakið aðeins athygli í þessu máli og hefur verið gagnrýnt, m.a. af félaga hv. þingmanns, Birgi Ármannssyni, sem á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er sú staðreynd að þetta mál, þingsályktunartillagan, skuli ekki hafa fengið þann tíma sem eðlilegt er að þingsályktunartillaga fái, þ.e. að tillagan komi eftir fyrri umr. til nefndar, fari síðan út til umsagnar í tvær vikur og umsagnaraðilar fái síðan tækifæri til að gera grein fyrir athugasemdum sínum fyrir nefndinni áður en málið komi síðan aftur til síðari umr.

Hvað finnst hv. þingmanni (Forseti hringir.) um þessi vinnubrögð nákvæmlega? Hver telur hún að rökin séu fyrir því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi neitað því að málið fengi eðlilega þinglega meðferð?