140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt lýsingu hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur á þessu verklagi hefur hinn hugumprúði hæstv. utanríkisráðherra gengið nokkuð vasklega fram í því að taka til sín verkefni sem heyra undir önnur ráðuneyti.

Ríkisstjórnin hefur fjallað ítarlega um það og í einni fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra talaði ég um að settir hefðu verið á laggirnar svo og svo margir ráðherrahópar. Það getur verið að það sé ein lausn á vandamálinu, en þá spyr ég aftur: Hver er munurinn á að hafa ráðherrahópa starfandi í núverandi stjórnsýslu og núverandi stjórnskipan til að leysa mál eða þá að sameina ráðuneyti í svo stórt ráðuneyti að einn maður ráði ekki við það og hann ráði síðan einhvern hóp af aðstoðarráðherrum? Hver verður ábyrgð hvers og eins? Verður myndin skýrari í núverandi kerfi eða því kerfi sem hæstv. forsætisráðherra vill koma á? Ég held að skynsamlegast hefði verið að vanda sig meira áður en menn ana út í þessa vitleysu. Það verða lokaorð mín í bili.