140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í fyrri hluta ræðu sinnar fjallaði þingmaðurinn um þau mál sem eru hér á dagskrá. Ég vildi spyrja þingmanninn hvernig hann meti það samkomulag sem við þingflokksformenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks buðum ríkisstjórnarflokkunum í dag að fresta umræðu um þetta mál. Ég tek undir með hv. þingmanni að mér finnst galið að fara í þessa breytingu á þessum tímapunkti en er sammála mati þingmannsins á því að í upphafi kjörtímabils sé það skynsamlegt. Ég hef ævinlega verið á þeirri skoðun að þá geti ný ríkisstjórn mótað sína stefnu og áherslur með því að telja það betra að breyta Stjórnarráðinu til að ná sínum áherslum fram, en á þessum tímapunkti tel ég það mjög galið.

Í því samkomulagi sem við lögðum fram í dag lögðum við einfaldlega til að umræðu um þetta mál yrði frestað til morguns og við tækjum þessi 10 mál utan síðasta málsins um stjórnarskrána sem er líka verulegur ágreiningur um og þingmaðurinn fór aðeins inn á. Þar fyrir utan buðum við að taka mætti fleiri mál inn á dagskrá og búinn var til listi til þess af stjórnarþingflokksformönnum. Þar voru líka mjög góð mál, mörg hver, sum hver þyrftum við kannski aðeins að skoða, en við vorum tilbúin til að hleypa að 15, 16, 17 málum og fannst það bara sjálfsagt til að láta þingið ganga. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti lagt eitthvert mat á það með sína þingreynslu af hverju í ósköpunum menn velja að hafna þessu og taka þessa umræðu blákalt áfram. Er það virkilega svo að þetta mál, stjórnarráðsbreytingin, sé þvílíkt forgangsmál (Forseti hringir.) hjá hæstv. forsætisráðherra að hún sé í raun og veru tilbúin (Forseti hringir.) til að halda öllum þingstörfum í uppnámi og þingnefndavikunni í næstu viku hálfónýtri (Forseti hringir.) vegna þess að mál á dagskrá eru ekki rædd?