140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann ræddi hluti sem hafa kannski ekki verið mikið ræddir og snúa að starfsmannamálum. Við skulum ekki gleyma því að það er mikið álag á starfsmann þegar verið er að sameina eða sundra stofnun sem hann vinnur hjá. Það þekkja allir. Menn kaupa sér oft sérfræðiráðgjöf og þjálfun og annað slíkt þegar verið er að sameina fyrirtæki. Það getur gengið mjög illa og tekið mörg ár og jafnvel áratugi að vinna úr því ef illa gengur.

Mér finnst áhugavert þegar litið er á gögn málsins hvað þetta er ofsalega illa undirbúið. Við munum setja stofnanir út um allt í fullkomna óvissu. Starfsmenn vita ekki hvaða ráðuneyti þeir heyra undir og ef einhver heldur að það skipti ekki máli og fólk sé ekki að líta til þess, bæði þeir sem vinna þar og þeir sem njóta þjónustunnar, þá er það fullkominn misskilningur. Mér finnst óskiljanlegt af hverju, þvert á allar ráðleggingar og þvert á það sem ég hélt að allir væru sammála um, ef menn eru ekki sammála því að sameina eigi Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann eða að samvinna eigi í það minnsta að vera mikil að þeir ætli að setja hvora stofnun undir sitt ráðuneyti.

Ég vil spyrja hv. þingmann að öðru. Ég er þeirrar skoðunar að margt megi bæta í Stjórnarráðinu en það er ekki verið að ræða þau aðalatriði hér. Eitt sem mér finnst skipta máli er að þeir embættismenn sem þar vinna séu ekki of lengi á sama staðnum. Ég held að átta ár ættu til dæmis að vera hámark allra hluta vegna, m.a. fyrir hagsmuni starfsmannanna en sömuleiðis fyrir skilvirkni á vinnustöðum. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvernig honum litist á þá hugmynd.