140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:49]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem hefur komið fram hjá þingflokksformanni Vinstri grænna að af hálfu þingflokksformanna stjórnarflokkanna er fullur vilji til sátta og að ljúka dagskrá í nótt ef vilji er til þess. Þá getum við tekið þau mál sem eru á dagskrá, gengið frá þeim, komið þeim sem þurfa til nefnda, lokið umræðu um önnur o.s.frv. Af okkar hálfu, þá tala ég fyrir hönd þingflokksformanna Samfylkingar og Vinstri grænna, er fullur vilji til að ganga til sátta og ljúka dagskrá.

Hafi menn ekki áhuga á því geta þeir rætt það mál sem er á dagskrá og haldið áfram inn í nóttina eins og þeir vilja. Við munum standa hér vaktina og fylgjast með þeim umræðum sem eru djúpar og efnislegar. Menn hafa klárlega áhuga á því að halda áfram. Ég ætla ekki að nota orðið málþóf, það skulu aðrir nota, en vilji menn taka dýpri efnislegar umræður um það mál sem er á dagskrá þá verði þeim að góðu. Ég sé enga ástæðu fyrir forseta til að slíta fundi.