140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:50]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er töluvert örlæti fólgið í því sjónarmiði sem hv. þm. Magnús Orri Schram setur fram og valkostirnir eru sem sagt: Við skulum klára það mál sem er á dagskrá hvað sem tautar og raular — og hinn valkosturinn er: Við skulum klára þetta mál og öll hin hvað sem tautar og raular. Þetta eru mjög góðir og spennandi kostir fyrir okkur hv. þingmenn.

Það sem við höfum einfaldlega talað um er að beita smáverksviti hérna og (Gripið fram í.) reyna að átta okkur á því hvar ágreiningurinn liggur og hvar við getum verið sammála. Við erum sérstaklega með tvö mál á dagskránni í dag sem hafa verið deilumál, erfið mál. Við höfum sagt sem svo: Tökum þau aðeins út fyrir sviga og klárum hin, við getum haldið áfram með þessi erfiðu mál á morgun. Auðvitað erum við dálítið að ræða þetta í þátíð af því að nú er kominn 4. maí og svigrúm til að semja um það sem gerist 3. maí er orðið harla takmarkað þannig að þetta eru svona fortíðarvangaveltur. (Forseti hringir.) Ég held hins vegar að það sem gerðist í dag beri (Forseti hringir.) ekki vott um mjög skynsamleg vinnubrögð en þegar menn stilla hlutum upp með þeim hætti að annaðhvort gerið þið allt sem við viljum eða þið gerið allt sem við viljum þá er ekki von á því að mikið (Forseti hringir.) samkomulag náist.