140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

skýrsla um áhrif frumvarpa um sjávarútvegsmál.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Á þessu vorþingi komu fram tvö mál frá hæstv. sjávarútvegsráðherra sem vörðuðu sjávarútveginn sérstaklega, frumvarp til laga um veiðigjöld og frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Lengi hefur verið beðið eftir þessum málum og sitt sýndist hverjum þegar þau komu fram. Af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni var bent á að í veiðagjaldafrumvarpinu væri gengið allt of langt í gjaldtöku af greininni og menn hefðu ekki lagt í þá vinnu að meta með raunhæfum hætti hver raunveruleg auðlindarenta greinarinnar væri. Varðandi frumvarpið um stjórn fiskveiða er áfram haldið eftir þeirri braut að auka óhagkvæmnina í greininni.

Nú hefur atvinnuveganefnd fengið málið til meðferðar og sent það út til umsagnar. Meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem nefndin hefur fengið til sín er að stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja mundi hreinlega ekki lifa frumvarp sjávarútvegsráðherra af og mundi fara á hausinn. Slíkar eru álögurnar sem menn hafa reiknað útgerðinni í þessu frumvarpi.

Mér finnst rétt að hæstv. sjávarútvegsráðherra geri þinginu grein fyrir því hvernig í ósköpunum stendur á því að svona mál hafi verið lagt fyrir þingið. Ég hygg að það hafi ekki nokkru sinni áður getað gerst að ráðherra greinarinnar hafi lagt fram frumvarp sem setur stóran hluta fyrirtækjanna sem starfa í greininni einfaldlega í gjaldþrot, í greiðsluþrot. Það getur bara ekki verið. Fyrir þessu verða menn að gera grein í þinginu. Við höfum sagt að réttast væri að taka málin aftur í ráðuneytið og vinna þau almennilega. Það kemur í ljós að menn eru með kolrangar forsendur fyrir öllum útreikningum. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvort rétta leiðin væri ekki að taka málin aftur til ráðuneytisins. Ef ekki, hvernig ætlar hann þá að bera ábyrgð á því að hafa lagt svona mál fram í þinginu?