140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

útvistun opinberra verkefna til Bændasamtakanna.

[10:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég endurtek það sem ég sagði að þessar ábendingar eru hafðar til hliðsjónar og hafðar með í þeirri vinnu sem er í gangi. Sú vinna tengist Matvælastofnun og einnig því að framsetning mála hvað varðar búvörusamningana og greiðslurnar þar o.s.frv. taki mið af þeim ábendingum sem settar hafa verið fram um að þetta sé nægjanlega skýrt aðgreint og að eldveggirnir séu traustir þarna á milli. Það er gert til að fyrirbyggja tortryggni um að þarna blandist saman fjármunir annars vegar Bændasamtakanna og hins vegar ríkisins í gegnum búvörusamninga eða búnaðarlagasamninga. Það er ekki svo í reynd en það er hins vegar rétt og skylt að verða við ábendingum um að ekki megi búa þannig um málin að það geti skapað tortryggni.

Varðandi það hvort hér sé byggðastuðningur á ferð veit ég ekki hvort hv. þingmaður á við búvörusamningana í heild eða afmarkaðri þætti þeirra mála. (Forseti hringir.) Það má líka segja að það sé stuðningur við neytendur þar sem það lækkar vöruverð í landinu og styður við innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi í landinu. Hægt er að nálgast málið frá ýmsum hliðum og reyndar fer talsverður (Forseti hringir.) hluti þessarar starfsemi fram á landsbyggðinni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að vera með einn fund í salnum. Ef menn þurfa að ræða saman þá skulu þeir víkja úr salnum á meðan, sömuleiðis í hliðarherbergjum.)