140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:13]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þöggun er einmitt alvarlegt vandamál og alvarleg ógnun við hina lýðræðislegu umræðuhefð. Ég vek athygli forseta og þingheims á umfjöllun í Fréttatímanum í dag þar sem tveir virtir fræðimenn, Vilhjálmur Árnason og Ólafur Þ. Harðarson, ræða um þessa ógnun við skoðanafrelsi og málfrelsi og þá ógn sem stafar að hinni opinberu stjórnmálaumræðu því að það er einatt og alltaf farið í manninn en ekki boltann. Lagaspekingurinn Sigurður Líndal (Gripið fram í.) gerði þetta líka að umtalsefni fyrr í vikunni. Það er auðvitað áhyggjuefni þegar menn halda að þeir geti komið hingað í þennan ræðustól á forsendum stjórnmálaumræðunnar, sem á að vera útvörður lýðréttinda, skoðanafrelsis og málfrelsis, og notað hann til að dylgja um menn og málefni, (Forseti hringir.) þó aðallega menn.