140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hafði áhyggjur af því í morgun að ég kæmi of seint til umræðu um breytingar á Stjórnarráðinu. Ég hefði getað sparað mér þær áhyggjur. Ég vil beina því til þingheims að íhuga að það er krafa á okkur öll að fara varlega, gæta orða okkar og sýna þinginu virðingu. Ég vonast til þess í kjölfarið á þessari umræðu að forseti og þeir sem talað hafa í þessari umræðu beini því til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar að biðja Stefán Má Stefánsson prófessor afsökunar á ummælum sínum. Hann dylgjaði um það í þingræðu 20. janúar síðastliðinn að Stefán Már Stefánsson léti það ráða afstöðu sinni hvort hann fengi greidda peninga eða ekki vegna starfa sinna. Það eru mjög alvarlegar dylgjur, frú forseti, sem beint er gegn fræðaheiðri virts fræðimanns. Ég sakna þess að þeir þingmenn sem talað hafa mjög hátt núna hafi það ekki með í þessari umfjöllun (Forseti hringir.) af því að eitt skal nú yfir alla ganga í þessum þingsal.