140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir mjög athyglisverða ræðu, sérstaklega andsvarið sem hann veitti rétt áðan. Það hefur nefnilega komið fram í umræðunum að mikil óánægja er með það að verið sé að leggja þetta mál fram rétt fyrir kosningar og umbylta Stjórnarráðinu enn á ný. Þessi ríkisstjórn hefur farið fyrir því. Því hefur verið líkt við stjórn Reykjavíkurborgar nú undir forustu Samfylkingarinnar og Besta flokksins, eða litlu deild Samfylkingarinnar í borginni, og eins þegar hv. fyrrverandi þingmaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, var borgarstjóri því að þá var líka stundað að umbylta sífellt borgarkerfinu á þann hátt að færa til deildir, stofna sviðsstjóra o.s.frv., svona sannkölluð kratavæðing eins og við horfum upp á hér.

Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn þar sem þetta mál er nú komið fram í formi þingsályktunartillögu og engin kostnaðaráætlun liggur þar að baki. Milli fyrri og síðari umr. var komið með minnisblað um að hugsanlegur húsnæðiskostnaður yrði á bilinu 150–250 millj. kr. og er alls óvíst hvor talan standi eða hvort kostnaðurinn endi í einhverri tölu þar á milli. Hugmyndirnar snúast meira að segja um að byggja hæðir ofan á núverandi húsnæði sem ráðuneytin eru í. Í framhaldi af þessu og kæruleysinu í fjármálastjórn og skipulagningu framkvæmdarvaldsins langar mig að spyrja hv. þm. Illuga Gunnarsson: Er ekki verið að framselja með freklegum hætti það fjárveitingavald sem Alþingi eitt hefur samkvæmt stjórnarskrá? Telur þingmaðurinn duga að koma hingað með (Forseti hringir.) fyrirliggjandi kostnaðarmat og kostnaðartölur þegar breytingarnar eru yfirstaðnar og leggja það fram í fjáraukalögum?