140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi samsæriskenningar um Evrópusambandið, það er varla hægt að kalla þetta samsæriskenningar þegar Evrópusambandið ályktar hvað eftir annað um hvernig staðið yrði að skipan ráðuneyta á Íslandi. Hv. þm. Jón Bjarnason fór ágætlega yfir þetta áðan og hefur gert oft áður meðal annarra.

Hvað varðar spurninguna um að fækka ráðuneytum og gera þau skilvirkari er ég ekki viss um að þetta fari endilega saman, að það að fækka ráðuneytum geri þau skilvirkari. Þetta getur einmitt haft þveröfug áhrif, að það að sameina ráðuneyti geri þau síður skilvirk.

Ég hef til að mynda verið andsnúinn sameiningu atvinnuvegaráðuneytanna í eitt ráðuneyti, talið að það mundi ekki skila miklu heldur þvert á móti skaða þessar greinar vegna þess að sérhæfingin sem er svo mikilvæg eins og ég rakti í ræðunni mundi skerðast (Forseti hringir.) ef ráðuneytin yrðu sett öll undir einn hatt.