140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

skuldavandi heimilanna.

[10:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Á þessu kjörtímabili hef ég farið á fjölmarga borgarafundi úti á landi. Síðast í þessari viku fór ég á borgarafund á Norðfirði sem snerist um sjávarútvegsmál fyrst og fremst en ég hef líka farið á fjölmarga fundi sem hafa snúist um heilbrigðismál. Flestir þessara funda hafa átt það sammerkt að þeir eru til komnir út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin stígur skref sem skerðir lífsgæði fólks sem býr úti á landi.

Það hefur líka verið haldinn fjöldi borgarafunda á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa hins vegar snúið að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og flestir snúist um skuldavanda heimilanna. Á vanskilaskrá hefur fjölgað um 1.500 manns á einu ári. Um 26 þús. einstaklingar eru í alvarlegum vanskilum. Um 8,7% einstaklinga yfir 18 ára aldri og 9% allra hjóna í sambúð með börn eru á vanskilaskrá. Þetta eru einstaklingar sem njóta ekki greiðsluskjóls hjá umboðsmanni skuldara.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að þessi mál séu á dagskrá á Alþingi. Það skiptir máli að það sé ekki verið að kveikja elda á landsbyggðinni heldur þarf að slökkva elda á höfuðborgarsvæðinu út af skuldavanda heimilanna. Ég mundi vilja heyra hæstv. forsætisráðherra útskýra fyrir þingheimi og þjóðinni hvernig hún og ríkisstjórnin (Forseti hringir.) ætla að fara í þær aðgerðir á næstu missirum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)