140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki einasta að það veki mikla furðu hjá mér að málið skyldi ekki hafa fengið eðlilega þingmeðferð í nefndinni, heldur ekki síður vegna þess að farið var fram á það af hálfu minni hlutans að málið yrði sent til annarra nefnda til umsagnar og meðferðar en því var hafnað. Það var óskað eftir fjöldamörgum umsögnum. Ekki þótti þörf á því að koma með neinar skriflegar umsagnir heldur var þetta afgreitt á einum til tveimur fundum í nefndinni.

Ég vil taka fram að ekkert samkomulag var um það hér í haust — þegar við fengum það inn í þinginu að þingsályktunartillagan skyldi lögð fram — að sú tillaga ætti að hljóta aðra meðferð en aðrar tillögur. Hreint ekki. Tilgangurinn var sá að málið fengi eðlilega þinglega meðferð eins og þingsályktunartillögur eiga að fá. Í því felst að mál séu send út til umsagnar, menn gefi sér tíma til að fara yfir þær umsagnir og vegi og meti síðan framhaldið.

Ekki síður hefði maður haldið að ástæða væri til þess vegna þess að fjölmargar athugasemdir eru um það hvernig haldið er á þessu máli af hálfu þeirra sem eru í samskiptum við ráðuneytið. Það er ekki bara vegna atvinnuvegaráðuneytisins, það er líka út af efnahagsmálunum. Þau eru nú fyrst að koma inn í þetta mál. Þetta heyrðist ekki fyrr en eftir áramótin, heyrðist reyndar ekki fyrr en hæstv. forsætisráðherra gerði breytingar á ríkisstjórn sinni. Þá allt í einu dúkkaði upp nauðsyn þess að fara að snúa öllum efnahagsmálum þjóðarinnar við. Það var nú ekki fyrr en þá sem það kom fram.

Það er síðan athyglisvert að nú er það orðin skoðun hæstv. forsætisráðherra að það sé Alþingis í atkvæðagreiðslu að kalla fram hvaða meiri hluti er fyrir ríkisstjórninni í hvert skipti.