140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir það með hv. þingmanni að eðlilegt væri að skipulag Stjórnarráðsins væri með þeim hætti sem viðkomandi ríkisstjórn vildi hafa það. En þá væri það auðvitað forsendan að það yrði gert í upphafi kjörtímabils. Þá væri komin reynsla á það og hægt að meta það þegar kjörtímabilinu lýkur og ný ríkisstjórn tekur við. Því er ekki að heilsa núna, heldur á að breyta þessu og eiga breytingarnar að taka gildi 1. september á þessu ári, en þá eru örfáir mánuðir eftir af kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar.

Ég hef töluverðan áhuga á ríkisfjármálum og forgangsröðun í þeim eins og margir aðrir hv. þingmenn: Í þessu tilfelli er lagt upp með að kostnaðurinn við þessar breytingar gæti verið í kringum 250 millj. kr. Það er ekki unnið í samstarfi eða sátt við aðra stjórnmálaflokka hér á Alþingi þannig að ætla mætti að fljótlega í upphafi nýs kjörtímabils yrði þessu breytt. Þá væri búið að setja 250 millj. kr. akkúrat í þetta verkefni til að koma því fram.

Tekin var ákvörðun um það um síðustu áramót að segja upp 28 konum á E-deild á sjúkrahúsinu á Akranesi, leggja deildina niður. Þessar konur hafa starfað þarna áratugum saman margar hverjar og sumar hafa meira að segja helgað sig þessari deild allan sinn starfsaldur. Möguleikar þessara kvenna til að fá vinnu við sitt hæfi á þessu svæði eru nánast engir. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún geti ekki tekið undir það að þetta sýni verkin, það sem er framkvæmt, en sé ekki í takt við orðaflauminn um kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn — að koma þannig fram gagnvart þessu starfsfólki og ekki síst gagnvart vistmönnum og aðstandendum þeirra sem búa á þessu svæði, allt það óöryggi sem fylgir því að fara í vegferð sem þessa. Auðvitað eru forsvarsmenn að fara eftir fjárlögum. Hefði ekki verið nær að setja þá peninga sem áætlaðar breytingar kosta í að reka deildina í tvö ár (Forseti hringir.) frekar en að fara í einskiptisaðgerð sem kannski skilar engu?