140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála hv. þingmanni um það að forgangsröðunin hér er kolröng. Hún endurspeglast í dagskrá Alþingis í dag, 33. mál á dagskrá Alþingis í dag er mál sem við gætum litið á sem mál til aðstoðar heimilunum. Það er mál nr. 33 á þessari dagskrá. Það má kannski segja að það sæti furðu að slíkt mál sé bara yfirleitt á dagskrá, en það er sem sagt á dagskrá nr. 33.

Nái þessi tillaga fram að ganga um breytingar á Stjórnarráði mun kostnaðurinn, og þá lítum við bara til breytinga á húsnæði, slaga upp í 500 milljónir á þessu kjörtímabili — 500 milljónir bara þegar litið er til húsnæðisins. Þá á eftir að fara yfir það hvert vinnuframlag starfsmanna hefur verið við þessar breytingar. Við getum velt því fyrir okkur hvort kröftum starfsmanna velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis, en bæði ráðuneytin fara með málaflokka sem skipta miklu fyrir fjölskyldurnar í landinu, og tíma hefði ekki verið betur varið í að finna lausnir á þeim þætti málsins frekar en að fara að þvælast milli skrifstofa úti um allan bæ.