140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hlutirnir þokast hægt og ég held að þar liggi hundurinn grafinn. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli, aga í ríkisfjármálum, en mig langar til að benda á það um leið að aðeins eru örfáir mánuðir síðan ég var með utandagskrárumræðu um nákvæmlega sama mál. Ég held að agi í ríkisfjármálum sé eitthvert brýnasta verkefnið sem snýr að þessari ríkisstjórn.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég heyrði að hæstv. fjármálaráðherra ætlar ekki að leggja frumvarpið fram fyrr en í haust. Ég hafði bundið miklar vonir við að við gætum rætt það núna, á þessum vormánuðum. Við höfum rætt það óformlega í fjárlaganefnd að fjárlaganefndin í heild sinni leggi fram þetta frumvarp. Ég held að þetta sé þannig verkefni að allir flokkar eigi að koma að því. Við getum unnið það í sumar ef vilji stendur til þess, ekki mun standa á mér varðandi þetta brýna verkefni.

Það er tvennt sem ég vil gera athugasemdir við. Frummælandi nefndi að hér hefði þingsköpum verið breytt og umgjörðin styrkt að sama skapi. Ég held að það sé ekki rétt. Ég vil benda á að það kom ekkert álit frá efnahags- og viðskiptanefnd um tekjuhluta fjárlaganna síðast í desember, sem er grafalvarlegt mál, einfaldlega vegna þess að þingsköpin voru ekki nægilega vel úr garði gerð.

Safnliðir hafa verið færðir frá fjárlaganefnd, eitthvað í menningarsamninga, það er ágætt, eitthvað í sjóði, en stór hluti inn til ráðuneytanna. Ég vil meina að þar hafi ráðstöfunarfé ráðherra einfaldlega verið margfaldað. Það var ekki það sem til stóð með þessum flutningum og hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, hefur komið hér upp í ræðupontu og lýst því yfir að gerð hafi verið mistök.

Virðulegi forseti. Við eigum einfaldlega langt í land. (Forseti hringir.) Við verðum að leggja saman í þessu vinnu. (Forseti hringir.) Ég brýni bæði formann fjárlaganefndar, sem kemur úr Samfylkingunni, og fjármálaráðherra sjálfan, sem kemur einnig úr Samfylkingunni, til að vinna þetta á (Forseti hringir.) grundvelli allra flokka á Alþingi.