140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var akkúrat að leita svara við þeim spurningum sem hv. þingmaður kom inn á. Þá fer maður óneitanlega að velta fyrir sér hvaða tilgangi þetta þjónar ef þetta stuðlar ekki að sparnaði sem er ein af meginröksemdunum fyrir þessum ráðuneytabreytingum, hefur að minnsta kosti verið. Það eru miklar efasemdir um að þetta muni á nokkurn hátt stuðla að auknum sparnaði, enda stendur til að setja aðstoðarráðherra, og gríðarlegur kostnaður felst í þessum breytingum, færa skrifstofur á milli húsa og annað því um líkt. Þetta mun að öllum líkindum ekki auka skilvirkni heldur þvert á móti auka völd embættismanna, eins og til að mynda fyrrverandi hæstv. ráðherra, Ragna Árnadóttir, benti á þegar hún var hætt sem ráðherra. Hún var mjög vinsæl sem ráðherra og hafði áður verið ráðuneytisstjóri þannig að hún þekkir mjög vel innviði ráðuneytanna. Hún sagði að menn skyldu alveg átta sig á því að ef við sameinuðum ráðuneyti svona mikið mundum við sjálfkrafa auka völd embættismanna og draga úr völdum þeirra sem raunverulega bera ábyrgð og eiga að taka ákvarðanirnar.

Hún hafði ekki neinna beinna hagsmuna að gæta af því að ráðast á ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.

Í ljósi þess að hv. þingmaður telur að þetta skili ekki fjárhagslegum sparnaði, þetta auki ekki skilvirkni heldur auki þvert á móti völd embættismanna spyr ég: Hver eru rökin fyrir því að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrím J. Sigfússon, með sér leggur svona gríðarlega áherslu á að auka völd embættismanna í íslensku samfélagi þegar það er ekki neinn sparnaður á bak við það? (Forseti hringir.) Er þetta til þess fallið að gera þær breytingar (Forseti hringir.) á samfélaginu sem allir vildu sjá hér eftir bankahrun 2008?

(Forseti (ÞBack): Forseti hvetur hv. þingmann til að virða tímamörk.)