140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er ferðasirkus sem fer um landið og lofar og gerir einhvers konar samninga. Það er mjög sérkennilegt að horfa upp á þetta þegar skrifað er undir með hægri hendinni eða vinstri og svo er tekið með hinni á bak við eða ekki hleypt áfram eða reynt að skemma, reynt að koma í veg fyrir að þessi byggðarlög geti vaxið á þeim grunni sem hentar þeim best. Auðvitað er það mjög sérkennilegt.

Það er líka mjög sérkennilegt að halda þessu máli í þinginu án þess að fá til dæmis ræddar breytingar á því. Það hefur ekki mátt ræða það að breyta því þingmáli eitthvað sem hér er til umræðu. Er hægt að setja gildistíma á það, að það taki ekki gildi alveg strax? Þetta er nokkuð sem hefur ekki verið svarað af því sem hefur komið fram í umræðum. Það er ýmislegt svona sem hreinlega vantar svör við.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að það er alveg sama hvað gerist, hvaða mál koma á dagskrá, hvaða mál bíða, þetta mál skal klárað hvað sem öðru (Forseti hringir.) líður. Heimilunum eða fyrirtækjunum má blæða út, þetta skal ná í gegn.