140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til að öllu sé til skila haldið er því einmitt lýst í stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að uppskipti á ráðuneytum geti vel átt sér stað. Þar er líka minnst á atvinnuvegaráðuneyti þannig að í sjálfu sér er flokkurinn ekki á móti því að þessi atriði séu skoðuð. En í stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur líka að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu. Einn af hornsteinum sjálfstæðrar utanríkisstefnu í stefnuskrá Vinstri grænna er einmitt að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar þessi Evrópusambandsumsókn er komin í gang með þeim hætti sem hún er núna hlýtur líka að verða að skoða alla þá aðra þætti sem henni tengjast, m.a. uppskipti og uppstokkun á ráðuneytum og tilfærslu á stofnunum. Þau mál sem koma fyrir þingið og eru unnin hér eru mörg hver meira eða minna tengd Evrópusambandsumsókninni, a.m.k. að þau gangi ekki í berhögg við það sem þar er verið að semja um. Það má segja að Evrópusambandsumsóknin haldi flestöllum málum í gíslingu hvað það varðar.

Eitt af því er einmitt, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson kom að hér fyrr í dag, að í drögum að skilagrein til Evrópusambandsins um opnunarskilmála í landbúnaðarkaflanum er tekið sérstaklega fram að verið sé að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið iðnaðarráðuneytinu og stofna atvinnuvegaráðuneyti. Ef það kemur ekki Evrópusambandsumsókninni við, hvers vegna er þá verið að nefna það þar? (Forseti hringir.)

Ég kom í fyrri andsvörum mínum í dag inn á umræðuna um tengslin (Forseti hringir.) á milli þess sem hér er verið að gera og þess að svara kröfum Evrópusambandsins um breytta stjórnsýslu.