140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er algerlega hárrétt og ég hef verið að benda á það í þessari umræðu hvernig menn forgangsraða í ríkisfjármálum. Í skýrslu frá Ríkisendurskoðun segir að í 85% tilfella þar sem farið er út í sameiningar til að spara hafi sparnaðurinn ekki gengið eftir. Það eru of miklar væntingar. Menn setja fram mjög óraunhæfar sparnaðartillögur þegar verið er að sameina því að niðurstaðan er sú að í 85% tilfella gengur þetta ekki eftir.

Hæstv. forsætisráðherra sagði: Þetta sparast þegar búið er að sameina, þá er hægt að fækka. Hver er einn af veikleikunum í fjárlögum 2012? Það er aðalskrifstofa velferðarráðuneytisins. Hún var 46 milljónir í mínus í fyrra og verður aftur 46 milljónir í mínus á þessu ári. Það gefur því augaleið að þessi sparnaður gengur ekki eftir.

Mér finnst eins og menn séu að leyfa sér lúxus á sama tíma og ekki er til matur handa börnunum. Þannig lítur þetta út ef þetta er sett í samhengi við það sem maður gerir á sínu eigin heimili.

Ég lagði fram spurningu hér í dag en fékk hæstv. ráðherra, sem var í salnum, ekki í andsvar út af því. Á sama tíma og verið er að taka 250 milljónir sem ekki eru í fjárlögum og henda þeim í þessar breytingar, sem allir eru sammála um að munu ekki ganga eftir, er verið að loka E-deildinni á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Þar er verið að reka 28 konur út. Hverjir eru atvinnumöguleikar og hver eru starfsskilyrði þess ágæta fólks? Akkúrat ekki neinir, bara alls ekki neinir. Þetta eru allt saman konur, hafa unnið þarna í áratugi og sumar helgað sig þessari deild allan sinn starfsaldur. Þetta er framkoman. Svo koma stjórnarliðar og hæstv. forsætisráðherra og segja: Hér er kynjuð fjárlagagerð og kynjuð hagstjórn. Þetta er bara frasabull og kjaftæði.

Auðvitað verður þetta fólk dæmt af því sem það gerir en ekki af því sem það segir. Það er ekkert samhengi á milli þess sem hv. stjórnarliðar segja og gera. Ég held að það hljóti að standa í einhverjum hv. þingmanna stjórnarliðsins að samþykkja þetta en vera á sama tíma að gera aðra hluti eins og ég hef farið yfir.