140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 85/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

539. mál
[22:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svör hv. þingmanns. Það er ekki þannig að ég sé á móti því að menn gangi vel um úrgang og komi honum á réttan stað. Hins vegar hefur verið kvartað mikið undan reglum sem eru óþarflega flóknar og óþarflega íþyngjandi fyrir smotterí. Eins og einhver sagði var eitt fyrirtæki í heilan dag að reikna út plastinnihald í gámi og þurfti að borga 500 kr. í spilliefnagjald.

Þetta er náttúrlega alveg glórulaust að einn starfsmaður sé að vinna í heilan dag til þess að borga 500 kr. Það er þetta sem atvinnulífið hefur kvartað undan. Þetta kemur líka til með að lesta heimilin og það má segja að hvorugur aðilinn sé mjög vel stæður um þessar mundir. En auðvitað þurfum við að ganga vel um og ganga frá okkar úrgangi með sómasamlegum hætti en það þarf líka að gæta hófs í því og skynsemi.