140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi taka undir orð hv. þingflokksformanns Framsóknarflokksins, Gunnars Braga Sveinssonar, og hvetja hæstv. ríkisstjórn til að fara að huga að því sem skiptir máli í samfélaginu og það eru aðgerðir til örvunar atvinnu og uppbyggingar í samfélaginu og þær sem snerta fjármál og skuldamál heimilanna.

Hv. þingmaður lét þess getið að Framsóknarflokkurinn væri með 11 þingmál inni. Ég get upplýst að við sjálfstæðismenn erum með að minnsta kosti tíu mál sem snerta efnahagsumbætur og skuldamál heimilanna og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að taka þessi mál til afgreiðslu vegna þess að það eru fjölmörg mál, þar á meðal flýtimeðferð fyrir dómstólum og stimpilgjaldsafnám, sem kæmu fjölskyldunum í landinu vel.

Ég kvaddi mér hljóðs til að eiga orðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formann hv. velferðarnefndar, og inna hana eftir því hvort hún gæti upplýst um stöðu skipunar starfshóps í kjölfar samþykktar Alþingis 18. janúar um staðgöngumæðrun. Þann dag var samþykkt þingsályktunartillaga með 33 greiddum atkvæðum gegn 13, yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna sem samþykkti þingsályktun um að fela hæstv. velferðarráðherra að skipa starfshóp til að semja frumvarp að undangenginni mikilli og ítarlegri skoðun á þessu máli. Nú eru tæpir fjórir mánuðir liðnir og enn hefur ekkert heyrst af skipan þessa starfshóps og því spyr ég hv. formann velferðarnefndar hvort hún geti upplýst okkur um stöðu þessa máls.