140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég bendi áhugamönnum um stefnu Framsóknarflokksins á að árið 1944 ályktuðum við um fjárkláða. Ég man ekki eftir að sú ályktun hafi verið afnumin sérstaklega.

Ég vil líka segja, frú forseti, að það er mjög sérkennilegt að hlusta á rökstuðninginn hérna fyrir þessum breytingum, að hugsanlega, kannski, mögulega, líklega, vonandi muni þetta breyta einhverju. Það er mjög sérstakt að þetta sé rökstuðningurinn, að ekki séu færð fram haldbær rök fyrir þessum breytingum.

Það er líka mjög sérstakt að standa í breytingum sem þessum þegar augljóst er að ný ríkisstjórn mun taka við í síðasta lagi eftir eitt ár. Málið er líka sett fram í miklu ósætti, bæði augljóslega innan stjórnarflokkanna og við stjórnarandstöðuna sem ekki hefur komið að þessu máli með nokkrum hætti.

Atkvæðagreiðslan mun eflaust enda þannig að stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar munu samþykkja þessi málalok og er það að sjálfsögðu bara á þeirra ábyrgð en við sem höfum efasemdir um að færri ráðuneyti séu betri en fleiri munum að sjálfsögðu beita okkur fyrir því (Forseti hringir.) mjög fljótlega að þessu verði breytt (Gripið fram í.) til baka.