140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. 18. nóvember 2010 svaraði hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon spurningu minni um það hvort hann teldi vera ríkisábyrgð á innstæðum. Við erum hér að ræða tryggingakerfi á innstæður og ég vil spyrja hæstv. ráðherra sem flytur þetta mál hvort hún telji að það sé ríkisábyrgð á innstæðum.

Ég vil fá það skýrt fram hvort ríkisábyrgð sé á innstæðum á Íslandi, formleg ríkisábyrgð, þannig að ef til stykkisins kæmi, einhver innlánsstofnun færi á hausinn, muni ríkissjóður vera skuldbundinn samkvæmt gildandi lögum að greiða þær innstæður.

Þá vil ég enn fremur spyrja: Hér er verið að breyta í A- og B-deild, þar sem Icesave verður í B-deildinni. Icesave getur farið á tvennan máta, annaðhvort töpum við málinu eða við vinnum það. Ef við töpum því, mun það ekki vera talin leikbrella hjá Íslendingum að hafa skipt þessu í tvennt á meðan aðrar þjóðir eru sumar með eftirágreiddar innlánstryggingar í bankakerfinu?

Þetta eru þær tvær spurningar sem ég hef til hæstv. ráðherra.