140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[15:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að taka undir þakkir til hv. málshefjanda fyrir að taka málið upp af því að mikilvægt er að ræða gagnrýnið af og til hver reynslan er af Schengen. Allt frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákvað að við skyldum gerast aðilar að Schengen fyrir rúmum áratug hefur verið álitaefni hvort gengið hafi verið til góðs eða ekki.

Hv. þingmaður Birgir Ármannsson og hæstv. innanríkisráðherra röktu áðan að auðvitað er margs konar og augljós ávinningur af samstarfinu. En það eru líka ágallar og þess vegna er sjálfsagt að taka út reynsluna, nýta okkur það svigrúm sem svo sannarlega er innan Schengen-samkomulagsins, eins og nefndar þjóðir hafa nýtt sér, t.d. að taka upp öflugra eftirlit á eigin vegum. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að mjög mikilvægt er að skoða það. Það er ekki eins og við Íslendingar höfum ekki stundað öflugra eftirlit á eigin vegum á síðustu árum, þannig hafa einmitt verið viðbrögð stjórnvalda á síðustu missirum og mánuðum gagnvart komu erlendra skipulagðra glæpagengja til landsins, þ.e. öflugra landamæraeftirlit. Ég tek undir að það þurfum við svo sannarlega að þróa, meira eftirlit á eigin vegum innan samstarfsins, af því að hægt er að fullyrða að með samstarfinu séu til staðar upplýsingar og eftirlit gagnvart þeim sem hafa Ísland sem fyrsta viðkomustað, sem annars væri ekki fyrir hendi. Schengen-samkomulagið hefur því margvísleg jákvæð áhrif í þá átt að stöðva komu margra einstaklinga hingað í glæpsamlegum tilgangi sem við viljum ekki fá hingað.

Veikleikarnir eru hins vegar þeir sem nefndir hafa verið gagnvart þeim sem eru innan svæðisins og hafa ekki Ísland sem fyrsta viðkomustað. Við því getum við brugðist innan samstarfsins með auknu eftirliti á eigin vegum. Það er mjög mikilvægt að taka þetta út og kortleggja hvernig við getum gert enn þá betur, af því að öflugra eftirlit á eigin vegum innan samstarfsins (Forseti hringir.) er mikilvægt.