140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[15:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Jú, það er verið að skoða hvort taka eigi upp aðra kynslóð vegabréfakerfisins eða Schengen-vinnulags. Hvort við séum að fara að taka upp eigið eftirlit óháð Schengen þá getum við í raun ekki gert það, tekið upp reglubundið kerfi, á meðan við erum aðilar þar. En við erum að skoða hvort fara eigi í óreglubundna skoðun og síðan markvissa skoðun gagnvart einstökum hópum eins og við höfum gert. Þetta er í góðu samræmi við það sem Norðmenn eru að gera og fleiri þjóðir að íhuga.

Mér fannst ágætur samhljómur vera í þessari umræðu og ég held að við séum nokkuð samstiga innan þingsins um hvernig við eigum að bera okkur að í þessu máli. Í fyrsta lagi talar hér enginn um að hrapa að niðurstöðum heldur vilja allir komast að niðurstöðu að yfirveguðu ráði. Þannig hafa menn nefnt að við þurfum að skoða þá tvo kosti hvort við eigum að fara út úr samstarfinu eða að nýta okkur þá möguleika sem það býður upp á. Við skulum ekki gleyma því að það að eiga aðild að Schengen hefur ýmsa kosti í för með sér þannig að við munum ekki hrapa að neinum ákvörðunum.

Hér var spurt um skýrslur og beðið um að ég flytti skýrslu, og minnt á það að formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hafi óskað eftir slíku. Slík skýrsla mun liggja fyrir þinginu áður en því lýkur í vor, en ég var að aðgreina þá skýrslugerð annars vegar frá þeirri úttekt sem hv. þm. Árni Johnsen hefur óskað eftir sem er miklu dýpri úttekt á málinu og krefst mannafla og fjármuna til að ráðast í. Ég hef staðið fyrir umræðuþingi um Schengen-samstarfið og er því mjög hlynntur að við tökum þessa umræðu áfram (Forseti hringir.) í markvissum farvegi og þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni á Alþingi.