140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að hér sé ekki ruglað saman almennu samstarfi sem við Íslendingar eigum við önnur lönd eða samböndum eins og til dæmis í gegnum EES-samninginn við Evrópusambandið o.s.frv. Hitt er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á að marga vantar fé. Það sannast hið fornkveðna að það eru fáir borgarmúrar svo háir að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir þá. Fyrir mér er þetta hreint mútufé frá Evrópusambandinu til að aðlaga íslenskt stjórnkerfi og íslenskar stofnanir að Evrópusambandinu, eins og reyndar er markmiðið með þessum styrkjum í þeirri reglugerð sem gildir um þá hjá Evrópusambandinu.

Ég verð bara að segja, frú forseti, að ég frábið mér mútufé af þessum toga og til viðbótar er það svo skattfrjálst. Er verið að leggja til að undanþiggja það almennum íslenskum skattalögum? Það breytir svo sem ekki miklu (Forseti hringir.) því að tilgangur þessara styrkja er að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu á samningsferlinu (Forseti hringir.) og því er ég fullkomlega andvígur.