140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svona að meta það hvort hv. þingmaður svaraði já við því að ef Rússar, Kínverjar eða einhverjar þjóðir vildu koma hingað með sambærilega styrki gegn því að fá skattaívilnanir; mundum við taka á móti þeim?

Mér finnst það svolítið sérkennilegt og ég veit ekki hvernig við eigum að ná einhverri niðurstöðu í þessa umræðu ef hv. þingmenn koma hér eins og hv. þm. Helgi Hjörvar og segja: Ég ætla bara að leiða þessa hluti hjá mér. Það verður svolítið snúið að ná niðurstöðu ef við, sem erum í þessu tilfelli í stjórnarandstöðunni, spyrjum hv. þingmenn um mál og þeir segja: Við ákveðum bara að leiða þetta hjá okkur.

Þetta snýr ekki eingöngu að okkur, það eru ýmsir aðrir sem eru að fylgjast með þessari umræðu. Ég efast ekki um heldur veit að það eru fleiri en við sem erum á þingi sem spyrja þessara spurninga.

Hv. þingmaður var því miður með útúrsnúning. Hann veit alveg að við höfum ekkert að gera með að flokka dýr og fuglategundir eftir fuglatilskipun Evrópusambandsins ef við ætlum ekki að vera í Evrópusambandinu, við höfum nákvæmlega ekkert með það að gera, eða að flokka vistgerðirnar ef við göngum ekki í Evrópusambandið, við höfum ekkert með það að gera.

Á sama hátt er það sérkennilegt ef við ætlum að forgangsraða í menntamálum að leggja áherslu á að byggja upp túlkanám sem miðast við það að viðkomandi land sé aðili að Evrópusambandinu. Við vitum öll og erum sammála um það að menntun er afskaplega mikilvæg, en ég held að við ættum ekki að forgangsraða í þá veru með þá fjármuni sem við erum með.

Þetta er nokkuð sem (Forseti hringir.) menn þurfa að svara mjög skýrt, en miðað við þessi svör eða skort á svörum lítur út fyrir að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki sagt satt (Forseti hringir.) og hér sé um aðlögunarferli að ræða.