140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Svo er að skilja að borin hafi verið fram kvörtun við forseta vegna ræðu þingmannsins sem talaði á undan mér. Það er mjög athyglisvert að slíkt klögumál komi fram í þessu máli en tilkynningin er afar einkennileg.

Þar sem ég var að tala um dagskrá þingsins áðan við hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur langar mig að benda á að á dagskrá dagsins í dag eru 24 mál. Nú hefur Hreyfingin gengið til liðs við ríkisstjórnina, að vísu ráðherralaus, og hefur sett það sem skilyrði að málefni heimilanna, afnám verðtryggingar og fleiri mál skuli tekin í forgang. Mig langar hins vegar að benda þingheimi á að af þeim 24 málum sem eru á dagskrá í dag er ekkert sem snertir fjárhag heimilanna.

Á dagskrá eru mál er varða náttúruvernd, akstur utan vega, áfengislög, skýrara bann við auglýsingum og svo 10 EES-mál, sem sýnir forgangsröðunina hjá ríkisstjórninni. Ég vildi koma þessu að, forseti, vegna þess að sú umræða virðist vera komin á fleygiferð að eitthvað eigi að fara að gera í málefnum heimilanna fyrir helgi. Þetta er svipað því og þegar ríkisstjórnin ætlaði að bjarga heimilunum korteri fyrir síðustu kosningar, við vitum að þetta verður allt svikið.

En svo ég víki að umræðumálinu þá hef ég gagnrýnt það að frumvarpið sem er til umfjöllunar skuli vera tekið fyrir á undan þingsályktunartillögunni. Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að samþykkja rammasamning milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA) sem undirritaður var 8. júlí sl. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með tillögunni.“

Ég vísa í það, frú forseti, að hér er verið að ræða frumvarp til laga um breytingar á máli sem ekki hefur fengið samþykkt hjá Alþingi. Ég gagnrýni þetta mjög og beini ábyrgð þessarar dagskráruppstillingar til forseta þingsins sem fer með dagskrárvald. Því er vonandi komið á framfæri til forseta.

Þetta mál er mjög einkennilegt því að verið er að aflétta og víkja frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja sem eiga að fjármagna aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Það er einkennilegt að þetta skuli vera ESB-mál því að það brýtur klárlega jafnræðisreglu EES-samningsins, þá reglu að allir skuli vera jafnsettir og mismunun megi ekki eiga sér stað. Hér eigi að vera frjálst flæði fjármagns, fólks og vöru. Ákvæðin í frumvarpinu eru einmitt undanþágur frá þessu fjórfrelsisákvæði, ESB-verktakar eiga að geta streymt hingað inn, og starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum frá ESB-löndunum, og þeir sleppa við skatta og skyldur.

Um er að ræða mikið samkeppnisbrot gagnvart íslenskum verktökum og íslenska vinnumarkaðinum, verið er að gefa ESB-verktökum forskot á að hljóta brauðmola sem falla af borði ESB upp á 5.000 millj. kr. til að vinna verkið. Ekki er einu sinni verið að búa til hvata í íslensku efnahagslífi til að Íslendingar fái að njóta þess að fjármagn sé að koma inn í landið. Nei, því er öðru nær. Hér er um mikið undanþáguákvæði að ræða.

Vísað er í Vínarsamninginn, þ.e. að þetta byggist á því að um ræðismannssamband sé að ræða, sendiherrar njóti til dæmis allra skatt- og tollfríðinda þegar þeir koma til ákveðins ríkis. Ég vísa því algerlega á bug því að sendiherrar stunda ekki verktöku eins og lagt er til í frumvarpinu. Það er fráleitt að líkja þessu tvennu saman vegna þess að hér er beinlínis verið að gefa erlendum verktökum og erlendu vinnuafli mikið forskot. En þetta er í takt við þá kratavæðingu sem hér hefur verið frá því að ríkisstjórnin tók við völdum. Málunum er pakkað í sellófanpappír, þau eru sett fram á villandi máta og blekkingar notaðar, ef svo má segja, vegna þess að þessi tvö mál eru alveg óskyld. ESB-verktaki á ekki neitt sameiginlegt með sendiherra erlends ríkis hér á landi. Það sjá það allir sem vilja sjá og ekki er hægt að heimfæra og rökstyðja frumvarpið í ljósi þess.

Frumvarpið gengur fyrst og fremst út á það að verið er að elítuvæða íslenskan vinnumarkað. Verið er að gefa þegnum og verktökum ESB forskot, eins og ég fór yfir, með lagafrumvarpi frá Alþingi. Ég hvet þingmenn til að skoða þessi mál vel og hafna frumvarpinu því að þetta er ekki ásættanlegt fyrir okkur landsmenn í því ástandi sem við nú erum, undir algerlega verk- og vonlausri ríkisstjórn. Við skulum því taka höndum saman og fella þetta mál.

Það er annað sem er líka athyglisvert í þessu máli, en frumvarpið er í níu greinum. Greinargerðin er fremur rýr og athyglisvert að renna yfir fylgiskjal sem fylgir frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem þeirri spurningu er ekki svarað hverju íslenskur vinnumarkaður tapar á því að geta ekki tekið þátt í þeim verkefnum sem fara á í upp á 5.000 millj. kr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið lagt mat á það hvað undanþágur þær sem mælt er fyrir um í frumvarpinu gætu þýtt í minni skatttekjum ríkissjóðs frá því sem annars hefði orðið. Slíkt mat væri auk þess afar erfitt í framkvæmd, m.a. vegna þess að ekki liggur fyrir hvernig verk sem unnin verða samkvæmt ESB-samningi munu skiptast milli innlendra og erlendra ESB-verktaka. Mat á tekjutapi á auk þess tæpast við því IPA-styrkirnir eru veittir með því skilyrði að vera undanþegnir sköttum og opinberum gjöldum og mundu ekki berast ef ekki kæmi til skattfrelsið. Má frekar gera ráð fyrir því að ríkissjóður muni hafa tekjur af þessum styrkjum með óbeinum hætti ef ESB-verktakar verða innlendir aðilar.“

Þarna kemur fram að fjármálaráðuneytið gefur ekkert út á það hvert tekjutapið er vegna þess að IPA-styrkirnir koma beint inn í landið á undanþágum. Með þessari yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu er beinlínis verið að segja að innlendir aðilar fái ekki eitt einasta verkefni af því sem hér er. Hvernig á innlendur verktaki enda að geta staðist samanburð við ESB-verktaka sem fær að flytja inn vörur, efni og tölvubúnað í þau verkefni sem fyrir liggja á meðan íslenski aðilinn þarf að borga fullan virðisaukaskatt og tekjuskatt af vinnu starfsmanna og annað?

Þetta er borðleggjandi. Með þessu er verið að flytja atvinnuleysi Evrópusambandsins hingað og styrkja hinar svokölluðu stjórnsýslustofnanir sem peningarnir eiga að fara inn í. Ég geld varhuga við þessu, sérstaklega í ljósi þess að ég tel að ríkisstjórnin hafi gert sig brotlega að lögum þegar það var samþykkt rétt fyrir jólin að veita viðtöku 596 millj. kr., setja það inn í fjárlög, bæði inn á tekju- og gjaldalið, án þess að Alþingi væri búið að aflétta þeim fyrirvörum sem þarf til að mega taka við þessum styrkjum. Talandi um ráðherraábyrgð, frú forseti, þá tel ég að þarna sé mjög tæpt teflt hjá ríkisstjórninni.

Það er líka athyglisvert það sem kemur fram í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem segir að gert sé ráð fyrir að IPA-styrkirnir geti numið sem samsvarar um 5 milljörðum kr. eins og ég fór yfir áðan vegna tímabilsins 2011–2013. Þarna var komin af stað áætlun enda samningurinn undirritaður í júní í fyrra, árið 2011. Þarna er gert ráð fyrir að við eigum að taka við öllu þessu fé. Og svo segir:

„Um er að ræða verkefni samkvæmt sérstakri landsáætlun sem stjórnvöld hafa gert og ESB hefur fallist á. Áætlað er að styrkirnir komi til útborgunar frá og með árinu 2012 og verði greiddir á nokkrum næstu árum eftir framvindu styrktra verkefna.“

Virðulegi forseti. Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé um aðlögunarferli að Evrópusambandinu að ræða? Hvernig er hægt að halda því fram úr ræðustól Alþingis, eins og hæstv. ráðherrar hafa margoft og ítrekað gert, að ekki sé um aðlögun að Evrópusambandinu að ræða? Talandi svo líka um flýtimeðferð eins og hæstv. utanríkisráðherra talaði um þegar við vorum að ræða ESB-umsóknina sumarið 2009. Það átti að vera búið að ganga í Evrópusambandið, að mig minnir, á 18 mánuðum, sem var tóm blekking. Svo les maður að mjatla eigi þessu inn á ríkisreikninginn eftir því hvernig framvindan í aðlögunarferlinu er — þetta er svo svakalegt brot og inngrip í íslenskt stjórnkerfi að ég er nánast orðlaus, frú forseti. Þetta er klár aðlögun.

Ekki alls fyrir löngu spurði ég hvernig á því stæði að Hagstofan væri skyndilega farin að gera manntal. Ég hélt að skráning hér á landi væri með því besta sem þekkist í heiminum þar sem flest börn fæðast á spítölum og fá í heimahúsum. Þegar barn fæðist fær það kennitölu hjá þjóðskrá þannig að ég hélt að manntalið okkar væri mjög gott og það er það líka. Ég spurði hvort það gæti verið að Evrópusambandið væri að styrkja þetta manntal með IPA-styrkjum og allt ætlaði um koll að keyra. Ég fékk bloggkórinn og spunameistarana beint á mig. Raunverulega varð allt vitlaust út af þessu og talað um að ég sæi ESB-grýluna í hverju horni.

Hvað kemur ekki í ljós í síðustu viku þegar skýrsla Hagstofunnar kemur út? Jú, jú, í skýrslunni kom fram að Hagstofan hefði ekki getað ráðist í þetta manntal og íbúatal nema fyrir tilstilli IPA-styrkjanna sem hefðu farið inn í fjárlög 2012. Svona eru blekkingarnar og við þingmenn sem teljum hag Íslands betur borgið fyrir utan Evrópusambandið megum hafa okkur alla við að sjá í gegnum blekkingavefinn sem búið er að spinna í kringum Evrópusambandsaðlögunina.

Ekki er hikað við að hjóla í þingmenn þegar þeir koma með spurningar sem varða Evrópusambandið sem þarf að gjalda já við. Hiklaust er hjólað í þá og reynt að taka þá niður en eins og allir vita er um að ræða gæluverkefni Samfylkingarinnar, í raun eina stefnumál hennar. Það er hennar eina stefnumál að koma þjóðinni, landinu og auðlindunum inn í Evrópusambandið. Ef það tekst ekki þá má segja að þann dag sem aðildinni verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu fari jarðarför Samfylkingarinnar jafnframt fram því að Samfylkingin stendur ekki fyrir neitt annað.

Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, er hinn mesti sakleysingi í öllum þessum spuna Samfylkingarinnar í kringum það að koma okkur inn í Evrópusambandið. Hann fór fyrir Vinstri grænum inn í ríkisstjórnarsamstarfið með það á nokkurra manna vitorði fyrir kosningar að leyfa ætti Samfylkingunni að koma fram með þetta stefnumál héldi ríkisstjórnin velli. Þetta hefur verið upplýst í umræðum hér á þingi en hefur ekki verið haldið nægilega vel til haga. Þar gerði hv. formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, sig að hinum almesta ómerkingi sem á þing hefur verið kosinn, enda loga eldarnir glatt í kringum hann.

Ég á eftir að tala oftar í þessari umræðu því að efnið er mikið. Nú ætla ég að ræða aðeins um 4. gr. sem snýr að virðisaukaskatti, afar merkileg undanþága. Þar stendur, með leyfi forseta:

„ESB-verktaki sem selur vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skal vera undanþeginn virðisaukaskatti. Undanþágan er háð því skilyrði að sala á vöru eða þjónustu sé í beinum tengslum við starfsemi ESB-verktaka samkvæmt ESB-samningi.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skráðum aðilum sem selja vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi heimilt að telja til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum.“

Virðulegi forseti. Þarna er verið að opna á þá heimild að þeir ESB-verktakar sem koma hingað og vinna verk eða flytja inn vöru eða þjónustu hafi sjálfkrafa opinn tékka inn í ríkissjóð, að þeir fái allan þann innskatt sem af vinnunni, þjónustunni eða vörunum hlýst beint í sinn vasa aftur. Ef þetta er ekki mismunun á milli innlendra og erlendra verktaka þá veit ég ekki hvað mismunun er.

Í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er túlkun á því hvað innskattur merkir. Ég ætla að lesa það yfir þannig að þingmenn fái betri innsýn í hvað innskattur er. Hefst nú lesturinn, frú forseti, á 3. mgr. 15. gr. virðisaukaskattslaganna:

„Innskattur merkir í lögum þessum þann virðisaukaskatt sem á tímabilinu fellur á kaup skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum.“

Áður segir:

„Skattskyldir aðilar skv. 3. gr. skulu greiða í ríkissjóð mismun útskatts og innskatts hvers uppgjörstímabils, sbr. 24. gr. Sé innskattur á uppgjörstímabili hærri en útskattur skal ríkissjóður endurgreiða mismuninn.“

Verið er að setja það inn í undanþágufrumvarp vegna viðtöku þessara styrkja að þessir aðilar sleppi ekki einasta við skatta og skyldur hér á landi — allt frá því að þurfa að borga virðisaukaskatt, tolla og tekjuskatt af þeim aðilum sem hér starfa — heldur fá þeir að auki aukið forskot þar sem þeir geta látið ríkissjóð borga innskattinn sem til fellur vegna þjónustu, vöru og vinnu sem þeir standa fyrir hér á landi. Ríkissjóður verður ekki bara af tekjum við það að ESB-aðilar koma hingað og vinna alla þessa vinnu, þar sem íslenskir aðilar og verktakar eru ekki samkeppnishæfir, heldur er ríkissjóður að opna fjárhirslu sína fyrir þessum aðilum með því að greiða þeim þann innskatt sem til fellur.

Virðulegi forseti. Hér er verið að fara afar frjálslega með valdheimildir, sérstaklega vegna þess að þetta eru skattvaldheimildir sem eru mjög strangar. Mjög þungar refsingar eru við því ef fyrirtæki og einstaklingar, verktakar, svíkja undan virðisaukaskatti. Það er fangelsissök standi aðilar ekki í skilum með virðisaukaskatt til ríkisins. Það er með ólíkindum að þetta skuli vera komið hér inn, og ekki síður í ljósi þess að innskatturinn er nú 20,32%. Af umræddum 5 milljörðum gætu ESB-aðilar verið að fá 20,32% til baka frá íslenska ríkinu. Ég átta mig ekki alveg á því þegar ég tala þessi orð, en ég skal hafa töluna á hraðbergi síðar, hvað 20,32% af 5 milljörðum er há upphæð. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefði átt að vera búin að reikna það út og setja inn í umsögn sína. En ekki er einu sinni reynt, frú forseti, að leggja mat á tekjutap ríkisins. Það sjá það allir í hendi sér að þessi verk verða einungis unnin af aðilum í ESB vegna þeirrar mismununar sem ég hef farið yfir í ræðu minni.

Ég kem til með að taka aftur til máls en ég tel að hér sé um svo mikla mismunun að ræða að ekki sé hægt að leiða hana í landslög. Ég tel heldur ekki hægt að rökstyðja þessa mismunun á grundvelli Vínarsamningsins.