140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi virðisaukann og það sem hv. þingmaður spurði um er það bundið við aðila innan Evrópusambandsins þannig að vinir okkar í Kína geta væntanlega ekki komist inn í það mál. Hins vegar er fyrirkomulagið þannig að ef um er að ræða einhver sameiginleg verkefni verða íslenskir aðilar að greiða sinn virðisaukaskatt, sinn tekjuskatt og sitt útsvar en erlendi aðilinn losnar við það.

Það er þó alveg útilokað að fá nokkuð upp um hvernig farið er með framlag á móti þessum styrkjum. Við höfum spurt ítrekað eftir kostnaði Íslands við Evrópusambandsumsóknina og við gerðum það meira að segja bréflega úr fjárlaganefnd. Við fengum þau svör, held ég, frá öllum ráðuneytum öðrum en utanríkisráðuneytinu, að ekki væri um neinn kostnað að ræða. Það var ferðakostnaður hjá utanríkisráðuneytinu. Með öðrum orðum, ráðuneytin sem svöruðu okkur töldu engum — jú, svo kom svar frá sjávarútvegsráðuneytinu. Ráðuneytin töldu ekki kostnað starfsmanna sinna eða tíma fram sem kostnað.

Auðvitað er kostnaður af þeim verkum sem verið er að setja í gang af hálfu annaðhvort sveitarfélaga eða fyrirtækja sem mundu taka þátt í þessu eða stofnana sem munu taka þátt í þessu en það er hvergi dregið fram sem hluti þeirra útgjalda sem tengjast Evrópusambandsumsókn. Fyrst og fremst er reynt að nálgast málið undir þeim formerkjum að þetta séu styrkir, en þetta er í rauninni ekkert annað en það sem segir beint í texta um málið: Fjárhagsaðstoð við styrkþegann, íslenska ríkið. (Forseti hringir.) Það er ekkert annað.