140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:13]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson situr í utanríkismálanefnd. Ég vil spyrja þingmanninn hvort ekki hafi komið þar til umræðu skilgreiningin á stöðu Evrópusambandsins hér á landi. Við erum með sendiráð sem menn kalla sendiráð Evrópusambandsins, við erum með sendiherra Evrópusambandsins. Maður skyldi ætla að um hann giltu kröfur sem Vínarsáttmálinn, sem við erum aðilar að, gerir um hegðun, réttindi og skyldur sendiherra. Þessi sendiherra hefur tekið þátt í og auglýst fundi nánast eins og hann sé í framboði til forseta, tekið Iðnó á leigu o.s.frv., að ég best veit til að halda fundi. Hins vegar er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að Evrópusambandið sé stofnun og þetta sé eins konar samningur við stofnun sem hér á sér stað. Þetta rekst að mínu mati þarna verulega hvert á annað og þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hefur sú umræða ekki verið tekin í utanríkismálanefnd að skilgreina stöðu Evrópusambandsins, skilgreina stöðu, réttindi og skyldur sendiherra Evrópusambandsins og svokallaðs sendiráðs þannig að það sé ekki hægt að vera hér á tveimur forsendum í gangi?