140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að við ræðum aðeins undir liðnum Störf þingsins um það málþóf sem ekki er lengur orðin undantekning heldur regla í störfum þingsins. Ég sat yfir málþófi stjórnarandstöðunnar varðandi mál sem lýtur að aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu í gærdag og það er ekki fyrsta málið á þessu vorþingi sem málþófi hefur verið er beitt. Það er fremur að verða regla að málþófi sé beitt (Gripið fram í.) í hverju deilumáli sem er á dagskrá og leiða leitað til að koma í veg fyrir að meiri hlutinn geti tekið lýðræðislega ákvörðun á þessum vettvangi. Það á að vera okkur umhugsunarefni því að sannarlega hefur traust á stofnunina sett niður, m.a. vegna þessa verklags.

Þær raddir gerast háværari að fulltrúalýðræðið hafi kannski með sínum hætti runnið sitt skeið að nokkru leyti og það sé ástæða til að beita fremur beinu lýðræði. Ég held að sannarlega megi til sanns vegar færa að þjóðaratkvæðagreiðslur séu bæði málefnalegri, skemmtilegri og lýðræðislegri leið en málþóf til að ráða niðurstöðum í helstu álitaefnum samtíðar okkar. Við í þinginu ættum þess vegna kannski að velta því fyrir okkur á vordögum hvort ástæða sé til þess að við tökum þessi stóru deilumál, rammaáætlunina, kvótamálin, aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og stjórnarskrána og látum þjóðina einfaldlega skera úr í þeim málum með beinum og milliliðalausum hætti, fyrst ekki er hægt að ráða þeim til lykta fyrir málþófi í þinginu. (Gripið fram í.)