140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, auðvitað hvarflar sú hugsun að manni. Ég vil, sérstaklega varðandi til dæmis orðalagið þjóðareign, aftur vitna í Sigurð Líndal, með leyfi virðulegs forseta, þar sem hann segir:

„Ókosturinn við að nota hugtakið þjóðareign er hætta á að það verði notað í blekkingaskyni og þá til að dylja fyrirætlanir um íhlutun og umsvif ríkisvaldsins …“

Það er einmitt þetta, hvernig við notum hugtök. Menn fara oft og tíðum hér í þingsalnum frjálslega með hugtök og við því er svo sem ekkert að segja, en þegar kemur að stjórnarskránni þurfa menn heldur betur að vanda sig. Það er ekki bara til þess að vera með einhver leiðindi sem ég spyr um hvernig til dæmis er spurt um þjóðkirkjuna vegna þess að ég er að benda á að þegar menn standa frammi fyrir spurningunni um hvort það eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju er spurning hvernig það ákvæði eigi að vera. Menn geta verið mjög á móti þjóðkirkjunni og verið þeirrar skoðunar að það eigi að vera ákvæði í stjórnarskrá um að aldrei megi í lög leiða einhvers konar ákvæði um þjóðkirkju. Það eru svona (Forseti hringir.) hlutir sem við verðum að hafa miklu betur unna en raun ber vitni.