140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður biður þann sem hér stendur nánast að fara í einhverjar skyggnilýsingar sem ég hef ekki verið mjög góður í þótt ég hafi, eins og sumir aðrir þingmenn, fallið í þá gryfju að reyna það kannski of oft. Ég þekki í sjálfu sér ekki sögu Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárbreytingum nema að því leytinu til að árið 2009 stóðu þau býsna þétt í ræðustól út af hugmyndum um breytingar þá. (ÁI: Náttúruauðlindir …) Ég veit hins vegar að 2007, held ég að það hafi verið, þegar slitnaði upp úr vinnu við breytingar á stjórnarskrá, var það ekki síður vegna þess að Samfylkingin setti lappirnar niður í að breyta stjórnarskránni. Það er svo fyndið með það að það snerist (Forseti hringir.) um ákvæði um forseta Íslands. Líklega hafa skoðanir þessara flokka umpólast frá því að það var.