140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður benti á er mjög athyglisvert. Það er einmitt þess vegna sem ég hef áhyggjur af því hvað þessi þjóðaratkvæðagreiðsla mun gera í sambandi við viðhorf almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna í framtíðinni. Þetta er eiginlega spurningavagn — ég held að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi hitt naglann á höfuðið í ræðu áðan — frekar en konkret spurningar um það hvað eigi að standa í stjórnarskránni. Ég held að fólk verði fyrir miklum vonbrigðum með afstöðu meiri hluta þingsins verði þetta að veruleika, að í rauninni sé ekki verið að spyrja um nein konkret atriði sem munu svo vera í stjórnarskrá eins og þjóðin samþykkir þau.

Það er spurning hvort menn hafi ekki farið aðeins fram úr sér, hvort ekki hefði einfaldlega verið betra að vera með hefðbundinn spurningavagn — hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ætti kannski að athuga það — og fara af stað með slíka skoðanakönnun. Það er hægt að gera það. Það er ódýrara en þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál á þessu stigi. Í framhaldinu væri síðan hægt, þegar konkret tillögur hafa litið dagsins ljós um það hvað eigi að standa í stjórnarskránni og hvað ekki, að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú er, að því er mér skilst, að fara af stað einhver sérfræðingavinna varðandi þær tillögur sem komu frá stjórnlagaráði. Væntanlega munu þá þær tillögur sem lagðar voru fram í þingmáli í skýrsluformi í vetur breytast eitthvað þannig að við vitum í rauninni ekkert um hvað á að greiða atkvæði.