140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög góð spurning og athugasemd hjá hv. þingmanni. Það er hægt að fletta upp í þessari skýrslu sem hv. þingmaður vitnaði til og velta upp ótal spurningum sem fróðlegt væri að leita eftir afstöðu til hjá kosningarbærum mönnum á Íslandi. Það mundi hins vegar að mínu mati ekki þjóna tilgangi fyrr en Alþingi væri búið að móta þá tillögu sem leggja ætti fram.

Auðvitað er þessari tillögu um framsal ríkisvalds ætlað að koma til móts við að það verði hægt að ganga í ESB. Það er augljóst mál. Þess vegna vekur athygli, af því að þetta er frekar stórt mál, að þetta sé ekki ein af spurningunum sem lögð er til af hálfu meiri hlutans. Þetta er gríðarlega mikil breyting á stjórnarskránni og umhverfi okkar. Við þekkjum hversu mikið kapp það er í ríkisstjórnarflokkunum að koma þessu máli í gegn, aðildarumsókninni, og styrkja þá aðlögun sem Evrópusambandið í samvinnu við ríkisstjórn Íslands stendur fyrir. Þetta er auðvitað angi af því.

Það skýtur skökku við að menn vilji ekki spyrja þjóðina akkúrat þessarar spurningar en það ætti svo sem ekki að koma á óvart vegna þess að þegar aðildarumsóknin fór í gegn var felld í þinginu tillaga okkar sjálfstæðismanna um að fyrst færi fram atkvæðagreiðsla um það hvort Íslendingar hefðu viljað sækja um aðild að Evrópusambandinu. Stjórnarflokkarnir beittu sér mjög hart í því máli til að fá þá tillögu fellda.

Eins og ég sagði, frú forseti, er hægt að varpa fram ótal spurningum. Kannski væri sniðugast að fara þá leið sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hálfvegis ýjaði fyrr að, að þetta væri spurningavagn frekar en spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu, að gera það einfaldlega, hafa fleiri spurningar, taka gott úrtak úr þjóðskrá og halda svo áfram, sérstaklega af því að málið er í þeim farvegi í þinginu að sérfræðingar eru að vinna að frekari útfærslu og orðalagi o.s.frv. (Forseti hringir.) Endanlegt orðalag tillagna liggur alls ekki fyrir.