140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það má færa fyrir því rök að það sé ákveðinn veikleiki í tillögu meiri hlutans að ekki sé spurt um þetta mikla álitamál sem hefur að minnsta kosti einu sinni sett upp í loft vinnu við breytingar á stjórnarskrá. Þar af leiðandi velta menn fyrir sér hvers vegna ekki sé spurt út í vilja þjóðarinnar til 26. gr. svo eitthvað sé nefnt.

Annað sem ég var að reyna að vekja athygli á í ræðu minni áðan er að tillaga okkar um spurningu um jafnrétti til búsetu byggir á 6. gr. í tillögum stjórnlagaráðs. Þar af leiðandi hefði maður talið eðlilegt að spyrja slíkrar spurningar. Meiri hlutinn ákvað hins vegar að stökkva yfir tillögur stjórnlagaráðs þegar hann spurði um atkvæðavægið, þ.e. jöfnun atkvæða. Þetta er svolítið haltu mér – slepptu mér í einhverjum tillögum. Ég held að ég fari með rétt þegar ég segi að stjórnlagaráð hafi ekki lagt til jöfnun atkvæðisréttar þannig að það er ekki — (Gripið fram í.) nú, já, það er ekki að finna (Gripið fram í: Öll atkvæðin …) í þeirri bók sem ég var að lesa í það minnsta. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur að fara vel yfir þær breytingartillögur sem hafa komið fram því að ég held að allar eigi fullan rétt á sér í þeirri umræðu sem á að fara fram og þeirri könnun sem á að fara í væntanlega í október.

Sú tillaga sem ég nefndi áðan er svona:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði kveðið á um jafnrétti til búsetu?“

Það er algjörlega í samræmi við þá tillögu stjórnlagaráðs sem er í 6. gr.