140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

IPA-styrkir Evrópusambandsins.

[10:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Út af umræðunni sem hér hefur orðið um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu vil ég taka fram, sérstaklega þegar formaður utanríkismálanefndar labbar hér fram þingsalinn, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er algerlega andvíg því að gerast aðili að Evrópusambandinu og að mínu mati líka andvíg því að hafa sótt um. (Gripið fram í: Þið voruð …)

Það var samt ekki það sem ég ætlaði að ræða þó að ástæða væri til að ræða það nánar við formann utanríkismálanefndar. Þetta er núna í þessu ferli og ég verð bara að segja að mín skoðun er sú að það eigi að afturkalla þessa umsókn og taka til við önnur mál sem er miklu brýnna að fást við. Þessi umsókn heldur fjölda mála og framfaramálum á Íslandi í gíslingu og því fyrr sem hún er afturkölluð, því betra. Þjóðin á að taka ákvörðun um málið áður en þeirri umsókn er fram haldið.

Það sem ég ætlaði að spyrja forsætisráðherra um er staða IPA-styrkja sem við erum að ræða í þinginu. Þegar ég var ráðherra var lögð áhersla á það og kom sérstakt bréf frá forsætisráðuneytinu um að nú þyrfti að sækja um þessa IPA-styrki, það var líklega haustið 2010, og gefinn nokkurra daga frestur til að sækja um þá. Svo kom í ljós að það var engin heimild af hálfu Alþingis til að sækja um þessa styrki eða taka við þeim. Núna liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga sem heimili að sækja um þessa styrki og gera um þá samninga.

Hvaða lagalega og réttarlegu stöðu hafa þær umsóknir sem hefur verið unnið að undanfarið (Forseti hringir.) ár um IPA-styrki, ég tala nú ekki um ef við verðum svo lánsöm fella þá á þingi?