140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Mér finnst mjög athyglisvert það sem fram kemur í máli hans varðandi umfjöllun þingmannanefndarinnar um stjórnarskrána. Ég get tekið undir með þingmanninum að stjórnarskráin hafi ekki verið skaðvaldurinn í aðdraganda hrunsins. Ég get líka sagt það hér og endurtek og ítreka þá skoðun mína að vissulega þarfnast atriði í stjórnarskránni skoðunar og breytinga og ég veit að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er mér sammála um það. Þar má til dæmis nefna atriði varðandi forsetaembættið, svo sem málskotsréttinn, og einnig hvað varðar fullveldisframsal vegna alþjóðaskuldbindinga.

Það vekur líka athygli að þetta eru ekki þau atriði sem spurt er um hér. Þau hafa verið mjög til umfjöllunar í samfélaginu varðandi forsetaembættið, ekki síst núna vegna þess að forsetakosningar eru fram undan. Upphaflega tillagan var sú að kosningarnar og þessi þjóðaratkvæðagreiðsla ættu að fara fram samhliða. Sem betur fer var hægt að afstýra því. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig kosningabaráttan vegna forsetakosninganna væri núna ef þær væru haldnar samhliða, en það var ekki það sem ég ætlaði að ræða hér.

Mig langaði líka að spyrja hv. þingmann, af því að hann kom inn á Evrópusambandið í lok ræðu sinnar og nefndi réttilega að nú hefðu komið upp sjónarmið innan ríkisstjórnarflokkanna um að það ætti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarferlið, hvort hann telji að kominn sé meiri hluti fyrir því í þinginu. Ég veit að við deilum því sjónarmiði að leggja það í dóm þjóðarinnar hvort halda eigi (Forseti hringir.) aðildarferlinu áfram.