140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af þeim fjöldapóstum sem eru að berast til okkar hv. þingmanna, ég tek undir það með hv. þingmanni og ég sagði það líka áðan að mér finnst mjög sérkennilegt að fólk haldi að verið sé að fara í kosningar um stjórnarskrána, af því að þetta er auðvitað bara ráðgefandi skoðanakönnun.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér er mjög minnisstætt þegar þessi mál voru rædd í Silfri Egils, sem er vinsæll spjallþáttur, að þar sat fulltrúi Hreyfingarinnar, hv. þm. Þór Saari, í sama þætti og hv. þingmaður, þar sem hann var einmitt með tillögur að spurningu sem átti að bera fram, akkúrat í sama þættinum, þótt hann sæti ekki í nefndinni. Það endurspeglast kannski í því sem hv. þingmaður segir hér að verið er að semja um einhverjar spurningar. Það er mjög óeðlilegt að mínu mati að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem á sæti í þeirri nefnd hafði ekki hugmynd um hvaða spurningar ætti að bera fram en hv. þm. Þór Saari var með þær. Það undirstrikar náttúrlega þann málflutning sem hv. þingmaður hefur verið með, að verið er að semja einhvern veginn á bak við tjöldin um spurningar til að halda lífi í ríkisstjórninni.

Ég verð að segja fyrir mína parta, eða það er að minnsta kosti þannig þar sem ég fer um mitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, að ég man ekki eftir því að nokkur einasti maður hafi nefnt það við mig að við þyrftum að klára þessar breytingar á stjórnarskránni. Það eru allir að tala um að við þurfum að koma að skuldamálum heimilanna og skuldamálum fyrirtækjanna, atvinnuuppbyggingu, skapa störf og skapa von í þjóðfélaginu. Það eru að minnsta kosti þau skilaboð sem ég fæ úr mínu kjördæmi. En það virðist vera að ákveðinn hópur sem er í tengslum við þingmenn einstakra stjórnmálaafla telji þetta mikilvægasta málið. Sitt sýnist hverjum í því en ég held að þátttakan í kosningunum, um einn þriðji kjósenda tók þátt í þeim, segi allt sem segja þarf.