140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðu hennar.

Mig langar að benda á að það mál sem nú er til umræðu felur jafnmikla fyrirvara í sér og sú atvinnustefna sem ríkisstjórnin kynnti í dag. Sú stefna er full af fyrirvörum og á að taka gildi þegar komin verður ný ríkisstjórn í landinu.

Mig langar að benda á fyrirvarana sem eru kynntir með þessari breytingartillögu. Neðst í breytingartillögunni kemur fram, með leyfi forseta:

„Jafnframt komi skýrt fram á kjörseðli að kjósandi geti sleppt því að svara einstökum spurningum.

Einnig geymi kjörseðillinn eftirfarandi skýringartexta: Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“

Þarna er risastór fyrirvari sem verður að sjálfsögðu að hafa með fyrst farið er af stað með þá vitleysu að láta kjósandann vita að þetta sé ekki endanlegt plagg þar sem stendur skýrt að það geti tekið breytingum. Þess vegna spyr ég: Er ekki óeðlilegt að fara af stað með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem ekki er verið að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs heldur handvaldar spurningar frá ríkisstjórnarflokkunum?